
Dómsmálaráðherra hefur skipað Tómas Hrafn Sveinsson í embætti varadómanda við Endurupptökudóm frá og með 12. maí 2025 til og með 29. febrúar 2028 en greint er frá þessu í tilkynningu frá stjórnarráðinu
„Tómas Hrafn Sveinsson lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2006 og diplómanámi í góðum stjórnarháttum frá rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við sama skóla árið 2016.
Tómas Hrafn öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 2007 og fyrir Hæstarétti Íslands 2013. Árin 2007 til 2022 starfaði hann sem lögmaður og gegndi samhliða starfi formanns barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 2015 til ársloka 2022.
Frá 1. janúar 2023 hefur Tómas Hrafn starfað sem formaður umdæmisráðs Barnaverndar Reykjavíkur. Af öðrum störfum má nefna að hann var varaformaður kærunefndar útlendingamála 2021-2023 og hefur verið stjórnarformaður Menntasjóðs námsmanna frá febrúar 2025.“
Tómas Hrafn hefur einnig setið í yfirkjörstjórn í Reykjavík vegna forseta-, alþingis- og borgarstjórnarkosninga og fékk viðurnefnið Talninga-Tómas. Þá hefur hann að auki gegnt stundakennslu við lagadeild Háskóla Íslands 2009-2013 og hefur frá þeim tíma gegnt stöðu aðjúnkts við sömu deild.
Komment