
Barnabónus er nýtt verkefni sem Bónus hleypti af stokkunum í apríl 2025 til að styðja við bakið á barnafjölskyldum en það voru þau Thelma Lind Jóhannsdóttur og Óskar Bjarnason sem tóku við fyrsta boxinu.
„Viðtökurnar hafa verið hreint ótrúlegar en um 3000 umsóknir hafa borist. Vegna fjölda umsókna þá afhendum við umsóknir eftir fæðingardegi barns. Við erum að klára að afhenda þeim sem eignuðust barn fyrstu þrjá mánuði ársins. Við höldum svo áfram að vinna á umsóknir sem berast og miðum afhendingar við settan fæðingardag,“ segir Pétur Sigurðsson, verkefnastjóri Barnabónus.
Allt í allt gerir Bónus ráð fyrir að gefa um 5.000 Barnabónusbox á þessu ári samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu. Sjálfboðaliðar munu pakka þúsund gjöfum til viðbótar í þessari viku en sjálfboðaliðarnir gefa vinnu sína til styrktar Gleym mér ei.
Hugmyndin að Barnabónus kemur upprunalega frá Finnlandi en barnaboxið þar í landi hefur verið eitt af þekktustu og áhrifaríkustu félagslegu verkefnum Finna frá því fyrir miðja 20. öld. Finnska ríkið kom barnaboxinu á fót árið 1938 til að styðja við nýja foreldra og draga úr fátækt. „Okkar Barnabónus er hugmynd af svipuðum toga, því okkur er annt um viðskiptavini og velferð þeirra,“ segir Pétur.
„Við hvetjum foreldra til að sækja einungis um eitt box fyrir hvert barn og það myndi flýta fyrir ferlinu ef einungis foreldrar sækja um en ekki skyldmenni.“

Komment