
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, veitti nýverið styrki til verkefna sem miða að því að tryggja þolendum ofbeldis um land allt aðgengi að stuðningi og ráðgjöf en greint er frá þessu í tilkynningu frá yfirvöldum.
Veittir voru styrkir að upphæð 60 milljónum króna.
Eftirfarandi aðilar hlutu styrk:
Samtök um kvennaathvarf – 30.000.000 kr.
Samtök um kvennaathvarf hlutu styrk til reksturs athvarfs á Akureyri árið 2026. Við rekstur kvennaathvarfs á Akureyri er lögð áhersla á að nýta vel þá reynslu sem samtökin búa að og lagt upp með að sú þjónusta sem þar er veitt mæti vel þörfum kvenna og barna sem flýja þurfa ofbeldi, tryggi öryggi þeirra og stuðli að því að minni líkur séu á að konur snúi aftur í óbreytt ástand.
Rekstur Kvennaathvarfs á Akureyri hefur á síðastliðnum fimm árum sannað mikilvægi þess að rekið sé kvennaathvarf á landsbyggðinni og ljóst er að þær konur sem dvalið hafa í athvarfinu á Akureyri eru viðbót við þær sem annars sækja dvöl til Reykjavíkur.
Bjarkarhlíð – 22.000.000 kr.
Bjarkarhlíð hlaut tvo styrki, annars vegar 15 m.kr. styrk til þess að tryggja rekstur samtakanna og hins vegar 7 m.kr. styrk til að veita þolendum ofbeldis á Vesturlandi og á Vestfjörðum stuðning og ráðgjöf. Í þessum landshlutum er engin þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis og því hafa íbúar þar takmarkaðan aðgang að sambærilegri þjónustu og íbúar í öðrum landshlutum. Mikilvægt er að tryggja jafnt aðgengi að faglegum stuðningi, ráðgjöf og vernd fyrir þolendur ofbeldis hvar sem þeir búa á landinu.
Kvennaráðgjöfin – 4.500.000 kr.
Kvennaráðgjöfin hlaut styrk sem varið verður sérstaklega til lögfræðiráðgjafar í þjónustumiðstöðvum fyrir þolendur ofbeldis, þ.m.t. Bjarkarhlíð, Bjarmahlíð og Suðurhlíð.
Samtök um karlaathvarf – 3.500.000 kr.
Samtök um karlaathvarf hlutu styrk til þess að veita stuðning, ráðgjöf og fræðslu til karlkyns þolenda ofbeldis.

Komment