
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar felldi í vikunni tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að merkja gönguþverun á Hamrastekk sem formlega gangbraut. Tillagan hlaut tvö atkvæði, frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, en var felld með fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins og Vinstri grænna. Fulltrúi Framsóknarflokksins sat hjá.
Tillagan fólst í því að gönguþverun á Hamrastekk yrði merkt með gangbrautarskilti og hefðbundnum yfirborðsmerkingum, í samræmi við reglugerð um umferðarmerki. Gönguþverunin tengir saman göngustíga milli Urðastekks og Hólastekks annars vegar og Lambastekks og Skriðustekks hins vegar.
Í bókun Sjálfstæðisflokksins vegna málsins kom fram að flokkurinn harmi ákvörðun meirihlutans. Þar sagði að um væri að ræða fjölfarna leið barna og ungmenna og mikilvægt væri að auka umferðaröryggi á svæðinu. „Það hefur ítrekað komið í ljós að umræddur staður er hættulegur,“ sagði í bókuninni og gagnrýndi flokkurinn að meirihlutinn vildi ekki einu sinni samþykkja að skoða úrbætur.
Á umræddum vegkafla á Hamrastekk mætast tveir göngustígar en engar merkingar eru til að vara ökumenn við gangandi eða hjólandi vegfarendum. Þeir sem fara þarna yfir geta því birst skyndilega út á akveginn.
Í júní síðastliðnum varð alvarlegt slys á sama stað þegar ekið var á sjö ára dreng. Slys hafa orðið þar áður og telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins brýnt að svæðið verði tekið í gegn hið fyrsta.

Komment