
Samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru 103 mál skráð frá klukkan 17:00 í gærdag til 05:00 í morgun og gista fimm fangaklefa. Hér má sjá nokkur dæmi um verkefni næturinnar.
Lögreglan hafði afskipti af nokkrum ungmennum á tónleikum í Laugardalnum en þeir voru undir aldri og undir áhrifum áfengis. Nokkur þeirra framvísuðu skilríkjum sem ekki voru í þeirra eigu í óheiðarlegri tilraun til þess að villa um fyrir lögreglunni.
Tveir dyraverðir voru handteknir í miðborg Reykjavíkur fyrir líkamsárás en þeir voru báðir vistaðir í fangaklefum.
Þá var aðili handtekinn í miðborginni þar sem hann var til vandræða fyrir utan skemmtistað. Var hann fluttur á lögreglustöð þar sem skýrsla var tekin af honum. Að því loknu var honum sleppt en hann lofaði að vera ekki til frekari vandræða.
Lögreglan brást við beiðni um aðstoð í Breiðholtinu vegna strætófarþega sem var dauðadrukkinn og gat litla björg sér veitt. Var honum ekið til síns heima.
Leigubílstjóri í Breiðholtinu hafði einnig samband við lögregluna en hann var í vandræðum með farþegar sem neitaði að borga fyrir farið. Var maðurinn sótölvaður, neitaði að gefa lögreglu upp nafn og kennitölu og var óviðræðuhæfur sökum ölvunarástands. Var hann vistaður í fangaklefa.

Komment