
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölbreyttum verkefnum í dag, meðal annars vegna fjölda þjófnaðarmála, umferðarlagabrota og einstaklinga í annarlegu ástandi.
Tilkynnt var um þjófnað á skráningarmerki ökutækis sem og þjófnað á munum á byggingarsvæði. Þá var lögregla kölluð til vegna þjófnaðar úr nokkrum verslunum. Í einu tilviki voru fimm einstaklingar staðnir að verki og reyndu tveir þeirra að flýja án árangurs. Við nánari athugun kom í ljós að hópurinn er grunaður um skipulagða þjófnaði í fleiri verslunum. Allir voru handteknir og vistaðir í fangaklefa vegna rannsóknar málsins.
Lögregla þurfti einnig að hafa afskipti af óvelkomnum aðilum, meðal annars á heimili og annars staðar, auk þess sem kallað var eftir aðstoð vegna ógnandi viðskiptavinar sem olli eignaspjöllum í verslun.
Í umferðinni stöðvaði lögregla bifreið með eftirvagn eftir að farmur fauk úr vagninum og lenti meðal annars á annarri bifreið. Í ljós kom að ökumaðurinn hafði ekki tilskilin réttindi til að draga eftirvagn og var vettvangsskýrsla rituð. Annar ökumaður er grunaður um að hafa ekið á 134 km/klst. þar sem hámarkshraði er 80 km/klst., auk þess að vera undir áhrifum fíkniefna og aka sviptur ökuréttindum. Hann reyndi einnig að framvísa skilríkjum annars manns. Þá er einn ökumaður grunaður um ölvunarakstur, þó undir refsimörkum.
Karlmaður var sektaður eftir að hafa kastað af sér þvagi á lögreglustöðina við Hverfisgötu, en öryggismyndavélar náðu athæfinu á upptöku.
Lögregla handtók einnig mann sem gekk berserksgang á hóteli og er grunaður um eignaspjöll og vörslu fíkniefna. Annar karlmaður, sem var í annarlegu ástandi og hafði skallað ljósastaur, var fluttur á bráðamóttöku og er jafnframt grunaður um vopnalagabrot.
Að auki var skráningarmerki fjarlægt af bifreið þar sem vátrygging hafði ekki verið greidd, og maður var fluttur á bráðamóttöku eftir að hafa fallið niður stiga. Málin eru flest til rannsóknar hjá lögreglu.

Komment