
Einar Sveinsbjörnsson, einn reyndasti veðurfræðingur landsins, segir ótrúlegt veður framundan, gangi spálíkön eftir. Veðrið sem Ísland mun fá til sín á næstu dögum er líkara hlýindakafla að sumri heldur en að vori.
Í pistli sem hann skrifaði fyrr í dag segir hann að „nálægð háþrýstisvæðis næstu daga, sem að auki er staðsett á hárréttum stað, gerir það að verkum að á mest öllu landinu verður bæði hlýtt og sólríkt. Eiginleg sumarhlýindi, fremur er vorhlýindi.“

Þá bætir hann við að hæðir eins og þessi sem á leiðinni sjást hér alltaf annað veifið, en staldri oftast stutt við.
Ljóst er að mikill hiti og sól verður á landinu næstu daga ef spá þessi rætist. Þá segir Einar að mögulegt sé að hiti þessi verði lengur en þær tvær vikur sem hann ræðir um.
Einar tekur dæmi af Akureyri, þar sem meðalhitinn um miðjan maí er 6 til 7 gráður. „Þegar við bætast 6 stig við erum við komin með 12 til 13 stiga meðalhita.“
Einhver hætta er þó á þokubökkum með hafgolunni á Reykjanesi austur með suðurströndinni, hugsanlega líka höfuðborgarsvæðinu.

Eftir hitabylgjuna er síðan von á lágþrýstingi og vætu, með hitafari nær meðallagi.
Komment