
Félagið Ísland-Palestína boðar til mótmæla klukkan 08:45 í fyrramálið á Hverfisgötu 4, þar sem ríkisstjórnin mun halda fund.
Samkvæmt tilkynningu frá félaginu er ástæðan fyrir mótmælunum sögð meðal annars sú að sýna Frelsisflotanum sem siglt hefur í átt að Gaza með hjálpargögn fyrir sárþjáða Gaza-búa, stuðning en í gær réðust hermenn sjóhers Ísraels um borð í helstu báta flotans og handtóku fjölda aðgerðarsinna. Strax í gær brutust út fjölmenn mótmæli víðsvegar um Evrópu vegna inngrips Ísraelshers.
Þá segir í tilkynningu félagsins að mótmælendur muni einnig krefjast þess að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur geri skyldu sína gagnvart alþjóðalögum en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur sætt gagnrýni fyrir linkind gagnvart Ísrael en á dögunum tilkynnti hún um smávægilegar aðgerðir gegn Ísrael en mörgum þótti hún ekki ganga nægilega langt.
Hér má lesa textann við viðburðarlýsingu mótmælanna á Facebook:
Kæru vinir, í gær voru áhafnir fremstu skipanna í Gaza Freedom Flotilla, eða Frelsisflotanum, handtekin af Ísraelsher í kolólöglegri aðgerð. Mótmæli hafa brotist út víða í Evrópu vegna þessa og alsherjarverkfall verið skipulagt á morgun á Ítalíu. Það er gríðarlega mikilvægt að við sýnum flotanum stuðning með því að fylgjast með ferðum hans og þrýsta á íslensk stjórnvöld að tryggja öryggi flotans og að honum takist ætlunarverk sitt - að rjúfa ólöglega herkví Ísraels og opna leið fyrir neyðaraðstoð inn á Gaza.
Hungursneyð ríkir á Gaza og árásir Ísraelshers á almenning eru stanslausar og miskunnarlausar. Rauði Krossinn hefur nú yfirgefið Gaza-borg vegna árása Ísraelshers og eru þar með öll hjáparsamtök farin af svæðinu.
Fjölmennum við ríkisstjórnarfund á morgun, krefjumst þess að stjórnvöld geri skyldu sína gagnvart alþjóðalögum og styðjum Frelsisflotann!
Komment