
Alþjóðleg stjórnmál eru mjög merkilegt fyrirbæri. Hvergi annars staðar upplifði ég það eins augljóslega að það eru stóru löndin sem ráða - á sama tima og þau þurfa aldrei að axla ábyrgð á neinu. Þau eru með neitunarvald í Sameinuðu þjóðunum, sleppa því að vera aðilar að International Criminal Court, gera í raun bara það sem þau vilja þegar þau þurfa þess.
Þau passa þó ágætlega upp á að alþjóðleg stjórnmál líti út fyrir að allir hafi eitthvað um málin að segja. En það er í raun blekking. Fá dæmi eru eins skýr þessa dagana og stríðið í Úkraínu og þjóðarmorð á Gaza.
Innrás Rússlands í Úkraínu
Staðan er einföld: 24. febrúar 2022 réðust Rússar yfir landamæri Úkraínu og hófu árás sem átti að vera sérstök hernaðaraðgerð. Allir vissu hvað þetta var: árásarstríð. Allsherjarþing SÞ fordæmdi það á yfirgnæfandi hátt (141 með, 5 á móti), en í Öryggisráðinu féll bindandi ályktun strax daginn eftir með rússnesku neitunarvaldi. Þetta er blekkingin - enginn meirihluti ræður. Hagsmunir þeirra stóru yfirgnæfa allt. Neitunarvaldið er ekki slys — það er innbyggt í kerfið til að vernda þá sem ráða.
„En réttarríkið?“ Jú - Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn opnaði rannsókn og 17. mars 2023 voru gefnar út handtökuskipanir á hendur Vladimír Pútín. En ICC getur ekki framfylgt eigin ákvörðunum; dómstóllinn treystir á ríki til að handtaka. Bandaríkin eru ekki aðilar að ICC og voru því ekki skuldbundin til þess að handtaka Pútín þegar hann kom til Alaska.
Friður í Úkraínu?
Hvernig er hægt að ná frið í Úkraínu? Það er einungis hægt, annað hvort ef Pútín er látinn hætta eða ef hann lítur út fyrir að vera sigurvegari, að minnsta kosti gagnvart Rússum. Það er mjög augljóst að ef Pútín tapar stríðinu þá tapar hann líka lífinu. Honum yrði kastað frá og gerður að blóraböggli fyrir allt stríðið. Hvað Pútín myndi gera til þess að koma í veg fyrir tap er óljóst - en fólk óttast auðvitað kjarnorkuna.
Það þýðir að eina lausnin til þess að ná frið er að “kaupa” sigur fyrir Pútín. Það er praktíska leiðin til friðar. En er sú leið ekki alveg jafn ómöguleg? Ef Pútín fær að hertaka landsvæði án þess að þurfa að axla ábyrgð á því þá erum við aftur komin yfir í það pólitíska ástand sem ríkti á fyrri helmingi síðustu aldar. Þar sem stórþjóðirnar skiptu upp löndum með því að teikna nýjar línur á kort. Við vitum alveg hversu mikinn ófrið það skapar. Friður fyrir Pútín yrði því að vera keyptur með víðtækara ófriðarástandi um allan heim.
Þáttur Trump
Friðarverðlaun Nóbels. Það er ekkert launungarmál að Trump vill fá þessi verðlaun. Hann sér leið til þess með því að ljúka stríðinu í Úkraínu - og það er ekkert röng ályktun hjá honum. Vandinn er að það skiptir máli hvernig er farið að því. Ef það er hægt að kaupa stundarfrið, þá er það ekki verðlaunanna virði fyrir heiminn. Að Úkraína borgi fyrir friðarverðlaun Nóbels fyrir Trump með því að afhenta Pútín 20% af Úkraínu er ekki sanngjarnt á nokkurn hátt - né líklegt til langvarandi friðar.
Kúgun er normið
Ég er ekki að reyna að vera niðurdrepandi, í alvörunni. Ég er bara að reyna að segja það á eins skýran hátt hvernig pólitíkin virkar. Ástæðan er einföld - þegar völd eru annars vegar og valdabarátta, þá beitir fólk öllum aðferðum sem það getur til þess að ná árangri. Til þess að ná völdum. Þess vegna reyndum við að búa til Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðadómstólinn. Til þess að reyna að ná utan um misnotkun á valdi milli landa. En þegar allt kemur til alls þá er það geðþótti þeirra stóru og sterku sem ræður. Þess vegna þurfum við að segja nei, þegar það skiptir máli. Jafnvel þó enginn sé að hlusta. Þess vegna þurfum við að taka undir þegar aðrar þjóðir segja nei. Jafnvel þó stóru þjóðirnar hlusti ekki. Sérstaklega þegar þær hlusta ekki.
Alþjóðastjórnmál eru óþroskaðri útgáfa af innanlandspólitík (allra landa). Hérna á Íslandi virkar þetta nákvæmlega eins, þau valdamiklu þurfa aldrei að svara til saka eða axla ábyrgð. Pólitíska ábyrgðin verður aldrei lagaleg ábyrgð. En það er stigsmunur á því valdi sem stórþjóðirnar beita og því valdi sem gengur og gerist í innanlandspólitíkinni. Allavega hérna á Íslandi.
Margir þjóðarleiðtogar hafa sagt að það sé ekki hægt að skilja þetta vald fyrr en maður hefur verið í herberginu þar sem því valdi er beitt. Ef ég ætti að lýsa því hvernig þetta vald er, þá virkar það á svipaðan hátt og þegar maður var lítill og hafði þá tilfinningu gagnvart stóru krökkunum að þeir gætu hvar og hvenær sem er tekið í lurginn á manni. Þannig virkar alþjóðapólitíkin. Hún er svakalega barnaleg á þann hátt. Um leið og maður skilur það, þá skilur maður miklu betur af hverju hitt og þetta gerist í heiminum.
Komment