
Vélstjórinn og húmoristinn Anna Kristjánsdóttir segir í nýjustu dagbókarfærslu sinni á Facebook að nú sé búið að fresta andláti hennar. Anna hefur nefnilega verið að eiga við heilsuleysi að undanförnu en hún hefur verið með þvagrásarbólgu í viku.
Anna, sem býr á Tenerife eins og alþjóð veit, segist hafa mælt á sér blóðþrýstinginn í gær og blöskrað niðurstöðurnar.
„Dagur2304 – Andláti mínu hefur verið frestað.
Þegar ég vaknaði í gærmorgun leist mér ekki á blikuna. Ég mældi blóðþrýstinginn og mér ofbauð. Efri mörk blóðþrýstingsins voru 90 og neðri mörkin í 61. Ha, getur það verið. Ég hafði aldrei mælt blóðþrýstinginn svo lágan. Ég náði þvagprufu með hana meðferðis fékk ég Kristrúnu frænku mína til að keyra mig til dr Manúels á henni Mjallhvíti. Manuel skoðaði þvagprufuna og kvað upp úr þann úrskurð að hér færi ekkert á milli mála, bullandi þvagrásarbólga.“
Þannig hefst dagbókarfærslu Önnu en eftir að hafa leyst út helling af lyfjum, keyrði Kristrún hana heim þar sem hún fór beint upp í rúm.
„Ég tók þrjá skammta af lyfjum þennan daginn, en sleppti blóðþrýstingslyfjunum, hélt samt áfram að bylta mér í rúminu. Þegar nálgaðist miðnætti var mér farið að líða þolanlega, en þá kom nýtt vandamál. Ég var orðin útsofin og það sem eftir lifði nætur horfði ég út í myrkrið.“
Anna sér þó eitthvað jákvætt í þessum leiðinlegu veikindum sínum:
„Það er erfitt að vera ellikerling á þessum síðustu og verstu tímum
Það er samt jákvætt að búið er að fresta andláti mínu þar til síðar.“

Komment