
Annþór Kristján Karlsson, einn þekktasti glæpamaður Íslands á 21. öldinni, hefur stofnað fyrirtækið Karlsson Eignir ehf.
Tilgangur félagsins er að halda utan um eignarhald en greint er frá því í Lögbirtingablaðinu. Annþór er skráður framkvæmdastjóri þess og fer með prókúruumboð.
Í viðtali við Mannlíf árið 2022 sagðist Annþór hafa snúið við blaðinu. „Um jólin verð ég með BS í byggingafræði en ég ætla að verða húsasmíðameistari, múrarameistar og málarameistari og ég ætla að verða byggingaiðnfræðingur og byggingafræðingur. Ég ætla að vera með uppáskriftarréttindi fyrir teikningar,“ en Annþór sinnti námi meðan hann sat í fangelsi. Hann sagði að eitt af því góða við kerfið á Íslandi sé að föngum sé greitt fyrir að fara í nám.
„Auðvitað ætti kerfið að vera þannig að það er haldið utan um menn. Mér finnst alltaf vandamálið í fangelsiskerfinu vera að það er fjársvelt kerfi eins og mörg önnur kerfi. Það er erfitt að fara að réttlæta það og kvarta yfir því að fangelsiskerfið sé fjársvelt þegar heilbrigðiskefið er í molum. Auðvitað verðum við að ræða það sem er að og það gleymist oft í þessu að allir þessir einstaklingar sem eru að brjóta af sér kosta ríkið gríðarlega fjármuni og einstaklinga í samfélaginu líka; það er verið að brjótast inn hjá þeim og það er verið að valda þeim eignatjóni. Það er verið að valda einhverjum heilsutjóni. Þessir einstaklingar eru bara fíklar yfir höfuð. Þeir eru dýrir í kerfinu alls staðar. Auðvitað vil ég að það sé nóg af lögreglumönnum en það eru svo margir glæpamenn. Og það þarf einhver að vera að rannsaka þetta. Og dómarar; það þarf að borga peninga þangað. Alls staðar blæðir kerfinu út af mönnum eins og ég var. Ég var ógeðslega dýr einstaklingur fyrir samfélagið þannig að það er til ofboðslega mikils að vinna við það að ná hverjum og einum einstaklingi til baka. Og það er mín skoðun að það ætti að setja meiri pening í þennan málaflokk af því að það verður enginn betri af því að setja hann ofan í skúffu og taka hann úr skúffunni eftir eitt, tvö, þrjú, fjögur, fimm eða kannski 19 ár.“
Komment