
Auðunn Blöndal og Steinþór Hróar Steinþórsson eða Auddi Blö og Steindi Jr. eins og þeir eru gjarnan kallaðir, segjast hafa gert mistök þegar þeir ákváðu að taka upp 24 þætti fyrir jóladagatal Blökastsins sama daginn. Mistökin fólust aðallega í því að í hverjum þætti drukku þeir félagar einn bjór. Í síðustu þáttunum voru þeir því orðnir sauðdrukknir. Frá þessu sögðu þeir í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
„Þetta eru 24 þættir,“ segir Auddi í viðtalinu og heldur áfram: „En þetta var svolítið vanhugsað hjá okkur, það verður bara að viðurkennast. Þetta var tilraun sem ég veit ekki hvort að verði gerð aftur. Við tókum upp 24 þætti á einum degi og þú þurftir að drekka einn bjór í hverjum þætti. Þannig að við drukkum 24 bjóra á einhverjum sjö klukkutímum.“
Lilja Katrín Gunnarsdóttir, einn af þáttastjórnendum Bítisins spurði þá félaga hvernig andrúmsloftið hafi verið orðið á tuttugasta þættinum, í ljósi bjórdrykkjunnar.
„Eða bara á þætti átta,“ svaraði Auddi og hélt áfram: „Við vorum að reikna þetta áðan. Ef við færum hérna öll saman og fengjum okkur einn kaldann. Þá tæki það örugglega svona 15-20 mínútur að klára. Við værum að spjalla og svona en hver þáttur er bara 10 mínútur. Þannig að eftir hálftíma ertu búinn með þrjá bjóra þegar þú ættir í raun að vera búinn með einn.“
Steindi Jr. segir þá félaga stórsjá eftir þessari „tilraun“. „Þetta endaði líka ekki vel heldur,“ sagði hann en Heimir Karlsson spurði þá hvort síðustu þrír þættirnir hafi verið á gólfinu: „Nei, ég bara man ekki eftir þremur síðustu þáttunum,“ svaraði Steindi Jr. og hélt áfram: „Nú er ég að vera heiðarlegur.“
Útskýrði hann síðan fyrir þáttastjórnendunum að hann hefði mætt í tökur á jóladagatalinu lasinn, hafi verið með 38,5 gráðu hita og ekki búinn að borða mikið. Hann hafi fundið að þetta væri ekki hans dagur. Sem reyndist síðan vera rétt.
Hægt er að horfa á þættina í áskrift á Blökastinu.

Komment