
Félagið Ísland-Palestína blæs til pottamótmæla við utanríkisráðuneytið í allan dag. Vill félagið þannig verða við beiðni palestínsku fjölmiðlakonunnar Bisan Owda, sem hvatti heimsbyggðina á Instagram, til þess að minna ráðamenn á hungursneyðina sem nú blasir við Gaza-búum með því að berja í tóma potta.
Í lýsingu félagsins á mótmælunum segir:
„Við erum mætt með potta til að tromma í fyrir utan Utanríkisráðuneytið, Reykjastræti 8, til að minna á matarskortinn, tómu pottana, á Gaza. Ætlunin er að stanslaust glamur hljómi á meðan ráðuneytið er opið og því munum við skiptast á. Fólk er hvatt til að mæta hvenær sem er, milli 8:00 og 17:00, eftir getu.
Stundum verðum við mörg, stundum fá, en glamrið hljóðnar ekki.
Gaza gefst ekki upp - við gefumst ekki upp!
FRJÁLS PALESTÍNA!“
Á síðustu mótmælum félagsins við utanríkisráðuneytið var rauðri málningu skvett yfir blaðamann Morgunblaðsins sem hyggst kæra verknaðinn. Félagið Ísland-Palestína harmaði atvikið í yfirlýsingu sem birtist í fjölmiðlum en þar sagðist félagið standa gegn öllu ofbeldi:
„Félagið stendur gegn hvers kyns ofbeldi og það er ekkert sem réttlætir svona hegðun á viðburðum okkar. Hún er ekki velkomin á viðburðum félagsins og er ekki í okkar nafni.“
Komment