
Guðrún Kvaran gagnrýndi undirskrift Höllu Tómasardóttur forseta í frétt sem birtist í Morgunblaðinu í gær en Halla er vön að skrifa undir með því að skrifa Halla Tómas. Margir hafa tjáð sig um málið, þar á meðal Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingarinnar en hann vakti athygli á undirskrift ritstjóra Morgunblaðsins, sem honum þótti einkennileg. Björn Leví Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, blandaði sér einnig í málið á Facebook.
„Besservisserar landsins sameinist!
Allir skulu skrifa nafnið sitt eins og besservisserarnir segja.“ Þannig hefst Facebook-færsla Björns Levís, en hann birtir með henni skjáskot af grein Morgunblaðsins þar sem rætt er við Guðrúnu Kvaran um undirskrift forsetans.
Björn Leví, sem sjálfur var gagnrýndur á þingi fyrir klæðaburð, segir að fólk haldi að það hafi leyfi til að segja Höllu hvernig hún skuli klæða sig og skrifa nafn sitt, af því hún er forseti.
„Kannski að fólk haldi að af því að Halla er forseti, þá fái það einhvern vegin leyfi til þess að segja henni til um hvernig hún skrifar nafnið sitt (eða klæðir sig eða hvaðeina annað sem er í raun persónulegt).
Þessu skal ekki rugla saman við það leyfi sem fólk hefur til þess að tjá sig um hvernig á að sinna starfi forseta. Þetta tvennt er mjög ólíkt og leyfi fyrir einu gefur ekki leyfi fyrir hinu, þó Halla sé opinber persóna.“
Að lokum tekur þingmaðurinn fyrrverandi fram að hann sé ekki að tala um bann á tjáningafrelsinu:
„Og nei, ég er ekki að tala um að það eigi að banna fólki að tjá skoðun sína eða neitt slíkt. Ég er ekki að tala um þess háttar leyfi. Ég er að tala um hvað fólk leyfir sér að gera eða segja um persónuleg málefni annara.“
Komment