
Ragnar Þór Ingólfsson, alþingismaður og fyrrverandi formaður VR, hefur náð þeim árangri á braut metorðanna að vera orðinn ráðherra. Ekkert liggur fyrir um það hvort hann hafi markvisst stefnt að upphefðinni og því að bera nú ábyrgð á húsnæðismálum þjóðarinnar sem um langt árabil hafa verið hans hjartans mál. Fyrir liggur þó að formennska í VR hefur verið ávísun á frekari frama í stjórnmálum. Þar má nefna Guðmund H. Garðarsson, fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem varð gríðarlega valdamikill í formannstíð sinni.
Dæmi um hið gagnstæða er Stefán Einar Stefánsson, núverandi blaðamaður Morgunblaðsins, sem náði kjöri sem formaður VR á sínum tíma. Stefán er sagður hafa á sínum tíma ekki farið í launkofa með að hann vildi feta sömu slóð og Guðmundur H. og verða áhrifamaður í stjórnmálum.
Það fór þó á annan veg því félagsmenn VR felldu hann af formannsstóli eftir frammistöðu sem metin var döpur. Draumar Stefáns um áhrif af stökkpalli VR brustu þar með. Hann er þó ágætlega settur í dag sem spjallþáttastjórnandi og blaðamaður á Mogga með örlitla von um pólitíska upphefð innan Sjálfstæðisflokksins ...
Komment