
Lögreglan á Suðurnesjum hefur haft veður af þeim nýju sprungum sem komið hafa fram á Reykjanesinu eftir síðustu eldsumbrot og Mannlíf fjallaði um í morgun.
Í frétt Mannlífs eru birtar ljósmyndir af nýjum sprungumyndunum nærri þekktum ferðamannastöðum á Reykjanesinu en sprungurnar eru ekki innan svæðis sem Almannavarnir hafa merkt sem hættusvæði.
Í skriflegu svari til Mannlífs segir Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, að lögreglunni sé kunnugt um sprungurnar.
„Upplýsingar um nýjar sprungur eða holumyndanir sem að líkindum hafa myndast við jarðhræringar tengdum síðustu eldumbrotum hafa borist til okkar.“
Gunnar segir að Reykjanesbær ætli sér að bregðast við holunni sem myndast hefur nærri þekktum ferðamannastað með varúðarmerkingum og með því að afgirða svæðið.
„Um er að ræða holu- og sprungumyndanir ofarlega í Valahnúki við Reykjanesvita og einnig skammt frá göngustíg að „brú á milli heimsálfa“. Umræddir ferðamannastaðir eru í landi Reykjanesbæjar sem hyggst bregðast við væntanlega með varúðarmerkingum og með því að afgirða svæði nærri umræddum holumyndunum.“
Að lokum segir Gunnar að búið sé að setja upp girðingu og varúðarskilti við Valahnúk.
„Varðandi Valahnúk, þá má benda á að fyrir árið varð töluvert hrun úr toppi hnúksins og Reykjanesbær í samráði við lögreglu setti upp girðingu og varúðarskilti við uppgöngu stað á hnúkinn. Við munum í dag senda frá okkur frétttilkynningu þar sem varað er við þessum hættum.“
Komment