
Huginn Þór Grétarsson, rithöfundur og útgefandi, skrifar að tími sé kominn til að bregðast við því misrétti sem hann segir að karlar verði fyrir í íslensku jafnréttiskerfi. Hann hvetur almenning til að beita þrýstingi á stjórnvöld og krefjast jafnræðis.
Hann bendir á í pistli sem birtist á Vísi í dag, að í dag sé haldinn fundur hins nýja jafnréttisráðs, sem hefur tekið við af eldra ráðinu. Í því fyrra hafi lög um kynjahlutföll í nefndum verið brotin árum saman, þar sem nær eingöngu konur sátu í ráðinu og jafnvel formaðurinn var skipaður úr sama hópi. Þrátt fyrir kvartanir hafi Jafnréttisstofa, að hans sögn, ekki brugðist við.
Að sögn Hugins versnaði kynjahallinn þegar nýtt ráð var stofnað, þar sem félagasamtök á sviði jafnréttis fengu sæti, en þar eru, að hans mati, nær eingöngu kvennasamtök. Hann segir að karlasamtök hafi ekki fengið sambærilegan fjárstuðning og því ekki getað sinnt eigin hagsmunagæslu.
„Lengi hafa stjórnvöld mismunað stórlega kynjunum þegar kemur að stuðningi félagasamtaka sem vinna að jafnréttismálum. Hreyfingar sem gæta hagsmuna kvenna fá umtalsverða fjármuni meðan sambærileg félög er reyna að tala máli karla og verja þeirra hagsmuni fá litla sem enga fjármuni,“ skrifar Huginn í pistlinum.
Hann gagnrýnir að á fundum ráðsins sé umræðan einhliða og snúist nánast eingöngu um málefni kvenna og hinsegin fólks, en mál sem varða karla séu hunsuð.
„Gengdarlaust misrétti gagnvart kynjunum af hálfu stjórnvalda er viðhaft, og brýn jafnréttismál er varða karlmenn í samfélaginu eru virt að vettugi.“
Hann segist hafa orðið var við að þegar hann reyndi að tala fyrir málefnum karla hafi starfsmenn reynt að þagga niður í honum og ráðuneytið ekki brugðist við kvörtunum.
„Á fundum mínum hjá þessu svokallaða jafnréttisráði hefur mér blöskrað yfir einhliða áróðrinum, ég reynt að ljá máls á vanda karlmanna í umræðuhópum en varðhundar kvenréttinda hafa þá tekið það upp hjá sér að þagga niður í mér í miðju innleggi. Kvartaði ég undan þessu háttalagi starfsmanns Jafnréttisstofu án þess að fá nokkur viðbrögð frá ráðuneyti. Fulltrúar karlmanna í jafnréttisráðinu fyrir breytingar hafa einnig slæma reynslu af þessum þykjustuvettvangi jafnréttismála. Allt starfið er á forsendum kvenna og fjallar fyrst og fremst um réttindi þeirra.“
Huginn beinir einnig gagnrýni að Jafnréttisstofu og segir hana vinna fyrst og fremst að hagsmunum kvenna, á meðan algert tómlæti ríki gagnvart málum karla, til dæmis innan réttarkerfis, menntakerfis og í þjónustu við þolendur ofbeldis. Hann segir stofnunina hafa misst trúverðugleika og þurfi gagngera endurskoðun.
Hann gagnrýnir jafnframt Jafnréttissjóð, sem hann segir nánast eingöngu styrkja verkefni á sviði kvenna. Þau fáu verkefni sem snúa að karlmennsku og hafa fengið styrk séu jafnvel þau sem mála karlmenn í neikvæðu ljósi, en verkefni sem raunverulega styðja við karla fái ekki brautargengi.
„Samtök sem berjast fyrir jafnrétti fyrir drengi og karla hafa ítrekað sótt um styrk í þennan sjóð með brýn verkefni undir. Öllu hefur verið hafnað. Þegar litið er á hvaða verkefni eru studd af þessum svokallaða „jafnréttissjóði“ kemur í ljós að sjóðurinn ber ekki nafn með rentu, heldur er þetta kvenréttindasjóður, sem styður málefni kvenna.“
Huginn veltir því fyrir sér hvernig samfélagið myndi bregðast við ef jafnréttiskerfið snerist eingöngu um karla, og segir að slíkt ástand yrði aldrei liðið. Þrátt fyrir það sé þetta veruleikinn fyrir karla í dag.
Að hans mati er Ísland langt frá því að vera jafnréttisparadís. Hann segir að á sviðum þar sem hallar á karla sé hvorki vilji né aðgerðir til að bæta stöðuna, á meðan forgangur sé gefinn málum kvenna, jafnvel þótt munurinn þar sé orðinn lítill. Í þetta, segir hann, blandist meðvirkni í stjórnsýslu og fjölmiðlum.
Hann telur þó að breytingar séu í loftinu og að fleiri séu farnir að efast um núverandi kerfi. Að lokum hvetur hann lesendur til að láta í sér heyra og mótmæla því sem hann kallar kerfislægt misrétti.
„Ég veit ekki með þig ágæti lesandi, en ég neita að sitja stundinni lengur undir þessum lögbrotum framin af stjórnvöldum. Ég hef fengið nóg, og byrja þessa andspyrnu gegn þessu ranglæti með því að gagnrýna það opinberlega. Við þurfum öll að mótmæla!“

Komment