
Samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru alls 54 mál bókuð í kerfum hennar frá 17:00 í gær til 05:00 í morgun en fjórir aðilar gista fangageymslu. Hér má sjá nokkur dæmi um verkefni næturinnar.
Lögreglan sem annast útköll í Austur- og Vesturbæinn, miðbæinn og Seltjarnarnes, stöðvaði tvo ökumenn við hefðbundið umferðareftirlit. Voru þeir handteknir grunaðir um að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Voru þeir látnir lausir að lokinni sýnatöku.
Sama lögregla stöðvaði ökuníðing sem ók á 110 km/klst þar sem leyfilegur hámarkshraði er 60 km/klst.
Þá hafði lögreglan afskipti af aðila sem kom svo í ljós að hann hafði fíkniefni á sér. Var hann látinn laus að lokinni skýrslutöku.
Ökumaður bifreiðar stöðvaður við akstur við hefðbundið umferðareftirlit. Sá handtekinn grunaður um að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Laus að lokinni sýnatöku.
Lögreglan sem sér um Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes fór í útkall vegna eignarspjalla. Var gerandinn handtekinn en látinn laus að skýrslutöku lokinni.
Sömu lögreglu barst tilkynning um búðarþjófnað. Var málið afgreitt á vettvangi.
Lögreglan sem sinnir útköllum í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ stöðvaði ökumann við akstur við hefðbundið umferðareftirlit. Var hann handtekinn grunaður um að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna en látinn laus eftir sýnatöku.
Komment