
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður og fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, birti á mánudaginn pistil þar sem hún ræðir stöð íslenskra fjölmiðla. Ber hún saman RÚV og einkarekna fjölmiðla og setur það í samhengi við styrki sem þeir einkareknu fá.
„Árið 2023 námu styrkir til einkarekinna fjölmiðla 470 milljónum króna sem dreifðust á 25 rekstraraðila. Á sama tíma hlaut Ríkisútvarpið tólffalt hærra framlag en allir einkareknir fjölmiðlar samanlagt. Það má öllum vera ljóst að þessir styrkir duga skammt til að jafna þennan mikla aðstöðumun,“ segir ráðherrann fyrrverandi í pistlinum sem hún birti á Facebook. Rétt er að taka fram að ásamt því að vera þingmaður er Áslaug dóttir Sigurbjörns Magnússonar, stjórnarformanns Árvakurs en félagið á og rekur Morgunblaðið. Eignarhlutur hans í fjölmiðlaveldinu er 7%.
Áslaug tekur að það þurfi að setja hinu opinbera skýr mörk til að tryggja að einkareknum fjölmiðlum tækifæri til blómstra.
Gísli Marteinn Baldursson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, spyr í athugasemdakerfinu hvernig Áslaug myndi hafa kerfið ef hún fengi að ráða. „Þá er ég að meina hvort þú sért á móti þessum styrkjum til einkarekinna fjölmiðla, hvort þú sért á móti því að ríkið haldi úti Rúv, hvort þér finnist að Rúv ætti að fara af auglýsingamarkaði og hvort þú sjáir fyrir þér að fjármagnið sem nú kemur í gegnum auglýsingar komi þá úr ríkissjóði að öllu leyti eða hluta eða alls ekki?“
Áslaug var ekki lengi að svara fjölmiðlamanninum og er með svörin á reiðum höndum.
„Eins og hagræðingartillaga mín til ríkisstjórnarinnar var í upphafi árs þar sem ég lagði til ýmsar útfærslur í fjölmörgum málaflokkum þá lagði ég til að hætta styrkjunum til einkarekinna fjölmiðla, taka RÚV af auglýsingamarkaði sem fengi það ekki bætt og myndi minnka umsvif sín og hagræða í sínum rekstri og forgangsraða verkefnum. Síðan leyfa áfengis- og veðmálaauglýsingar með takmörkunum og skoða fleiri leiðir til að bæta samkeppnisumhverfi miðlanna. En i þessu eins og öðru má horfa til mismunandi útfærslna,“ skrifaði hún.
Komment