
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir að fyrirhuguð komugjöld á ferðamenn sem koma til Íslands séu „út í hött“. Svipað sagði forstjóri Icelandair í frétt Stöðvar 2.
Egill Helgason fjölmiðlamaður segir það „tóma vitleysu“ að bandarískir ferðamenn, sem skila 38% tekjum ferðaþjónustunnar, muni síður koma vegna gjalda.
„Ég ferðast mikið í Bandaríkjunum og það eru fáir staðir sem pilla af ferðamönnum jafn mikið af alls konar gjöldum - sem stundum koma manni dáldið á óvart. Aðgangseyri borgar maður líka að öllum mögulegum hlutum og hann er oft býsna hár. Mun hærri en í Evrópu. Það er tóm vitleysa að smávæglegt komugjald muni valda því að Bandaríkjamenn komi ekki til Íslands,“ segir hann á Facebook-síðu sinni.
Þá gagnrýnir Egill Helgason íslenska fjölmiðla fyrir að enduróma gagnrýnislaust umkvartanir hagsmunaaðila. „Það er svo stór spurning hví fulltrúar hagsmunaaðila eiga svo greiðan aðgang að fjölmiðlum á Ísland? Ástæðan er auðvitað sú að þetta er svo auðvelt- þetta er „low effort“ fréttamennska. Og svo er landið auðvitað smátt.“
Ferðaþjónustan hefur verið í lægra skattþrepi virðisaukaskatts. Þannig er almennur virðisaukaskattur 24% sem leggst á vörur og þjónustu, en þjónusta ferðaskrifstofa, hótelgisting, baðlón og fólksflutningar, bera aðeins 11% virðisaukaskatt.
Ríkisstjórnin hefur á stefnuskrá sinni að leggja komugjöld á ferðamenn sem síðar myndi breytast í auðlindagjöld sem felast í að greitt verði fyrir aðgang að náttúruperlum. Í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar segir um efnið: „ Vinsælustu ferðamannastaðir landsins eru í eigu þjóðarinnar og ríkisstjórnin hyggst taka upp auðlindagjald fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands. Á meðan unnið er að útfærslu verða innheimt komugjöld.“
Komment