
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, mælti í dag fyrir frumvarpi um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Að sögn ráðuneytisins er markmið lögfestingarinnar er að auka réttaráhrif samningsins hér á landi, tryggja að fatlað fólk njóti til fulls allra mannréttinda og koma í veg fyrir mismunun á grundvelli fötlunar.
„Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks markaði mikil tímamót í mannréttindabaráttu fatlaðs fólks. Auk þess að skilgreina sjálfsögð réttindi fatlaðs fólks, byggir samningurinn á þeirri hugmyndafræði að fötlun sé hluti af mannlegum fjölbreytileika fremur en frávik,“ sagði Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra í framsöguræðu sinni.
„Jafnrétti og bann við mismunun eru hornsteinn þeirra réttinda sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveður á um. Jafnrétti er þannig rauði þráðurinn í gegnum allar greinar samningsins og mun lögfesting hans hafa jákvæð áhrif á réttindi alls fatlaðs fólks hér á landi, óháð aldri, uppruna eða búsetu. Samningurinn tryggir fötluðu fólki víðtæk mannréttindi; borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Réttindi sem ófötluðu fólki þykja sjálfsögð.“
Komment