
Mistur hefur legið yfir sundunum í morgun og mengun vegna gosmóðu frá eldgosi á landinu er nú farin að ná til höfuðborgarsvæðisins. Hækkuð gildi fínasta svifryksins hafa mælst á mælistöðvum í Hvalfirði og Kópavogi, að því er fram kemur í upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.
Samkvæmt frétt Reykjavíkurborgar er um er að ræða svonefnda gosmóðu, eða blámóðu (e. volcanic smog), sem verður til þegar gasmengun frá eldgosi, meðal annars brennisteinsdíoxíð (SO₂), hvarfast við raka og súrefni í andrúmslofti með tilstuðlan sólarljóss. Við þessa umbreytingu myndast súlfat (SO₄) og brennisteinssýra, sem valda mengun sem erfitt er að greina með hefðbundnum SO₂-mælum. Hins vegar gefa mælingar á fínasta svifryki til kynna að mengunin sé til staðar.
Gosmóða hefur einkennandi blágráan lit og getur haft áhrif á heilsu fólks, sérstaklega þeirra sem eru viðkvæmir fyrir, s.s. með lungna- eða hjartasjúkdóma og fyrir ung börn. Einkenni eru meðal annars höfuðverkur, slen, erting í augum og hálsi, auk flensueinkenna.
Almennar ráðleggingar eru eftirfarandi:
- Lungna- og hjartasjúklingar haldi lyfjum sínum við höndina.
- Forðast skal áreynslu utandyra og halda sig sem mest innandyra.
- Halda gluggum lokuðum og slökkva á loftræstikerfum.
- Ekki er mælt með því að börn sofi úti í vögnum við þessar aðstæður.
- Rykgrímur veita enga vernd gegn gasmengun.
Þeir sem vilja fylgjast með þróun loftgæða geta nálgast mælingar á loftgæði.is og spár um gasmengun eru aðgengilegar á veður.is.
Komment