
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, hefur ákveðið að þiggja boð um ríkisheimsókn til Noregs og Svíþjóðar en greint er frá þessu í fréttatilkynningu frá forsetaembættinu. Í henni segir að markmið beggja heimsókna er að styrkja enn frekar söguleg tengsl þjóðanna og vinna að sameiginlegum hagsmunum og hefð sé fyrir því að norrænir þjóðhöfðingjar fari sínar fyrstu ríkisheimsóknir eftir embættistöku milli Norðurlanda enda náið samstarf meðal þjóðanna.
„Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning bjóða forsetahjónum til heimsóknar dagana 8.–10. apríl og verður farið bæði til Óslóar og til Þrándheims, en Hákon krónprins fylgir forsetahjónum þangað,“ segir í tilkynningunni. Þar verður horft til sameiginlegrar menningarsögu þjóðanna með áherslu á bókmenntir að sögn forsetaembættisins og skoðuð tækifæri til aukins samstarfs bæði í græna og bláa hagkerfinu, þ.e. á sviði orkumála og sjávarútvegs.
Karl XVI. Gústaf Svíakonungur og Silvía drottning bjóða forsetahjónum til Stokkhólms dagana 6.–8. maí en í heimsókninni verða meðal annars skoðuð tækifæri til frekara samstarfs á sviði líftækni og heilbrigðisþjónustu.
Forsetahjónum fylgir opinber sendinefnd en auk þess verða með í för viðskiptasendinefndir á vegum Íslandsstofu.
Komment