
Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, og Björn Skúlason, eiginmaður hennar, hefja þriggja daga ríkisheimsókn sína til Svíþjóðar á morgun, þriðjudaginn 6. maí en greint er frá þessu í tilkynningu frá embættinu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Alma Möller heilbrigðisráðherra taka einnig þátt í dagskrá heimsóknarinnar ásamt opinberri sendinefnd og fulltrúum viðskipta- og menningarlífs.
Samkvæmt tilkynningunni eru það Karl XVI. Gústaf konungur og Silvía drottning sem bjóða til þessarar heimsóknar og er markmið hennar að styrkja hin góðu tengsl landanna og vinna að frekara samstarfi, svo sem á sviði heilbrigðismála, sjónvarps- og kvikmyndagerðar og öryggismála.
Samhliða ríkisheimsókninni fer viðskiptasendinefnd, leidd af Íslandsstofu, til Svíþjóðar með fulltrúum 30 íslenskra fyrirtækja með áherslu á líftækni, nýsköpun og fjárfestingar. Í tilefni heimsóknarinnar fer einnig sendinefnd á sviði sjónvarps- og kvikmyndagerðar og tekur þátt í dagskrá sem skipulögð er í samstarfi Swedish institute og sænska utanríkisráðuneytisins við Kvikmyndamiðstöð Íslands og Film in Iceland.
Komment