
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, opnar sig um samband við unglingspilt í viðtali við Stöð 2 í kvöld. Ásthildur, sem eignaðist barn með 16 ára pilti árið 1990, talar um hann sem „mann“. Hún segir málið ósanngjarnt, en hefur sagt af sér ráðherraembætti, að hennar sögn vegna þess „hvernig fréttir eru í dag“.
„Það er út af því að fyrir núna um þrjátíu og sex árum var ég 22 ára gömul og var í sambandi við mann sem var yngri en ég, 16 ára,“ segir Ásthildur Lóa í viðtali við Vísi.is. „Það voru ýmsar aðstæður þar í gangi sem ég get ekki farið út í hér. En fyrst það er verið að draga þetta fram núna þá ætla ég ekki að láta þetta skyggja á störf ríkisstjórnarinnar og öll þau góðu málefni sem þarf að vinna í menntamálaráðuneytinu.“
Ásthildur kemst við í samtali við fréttamann Stöðvar 2 þegar hann spyr hana hvort erfitt sé að kveðja ráðuneyti barna- og menntamála.
„Það er erfiðara en hægt er að lýsa,“ segir hún.
Þá segist hún ekki samþykkja ásakanir barnsföður um að hún hafi tálmað umgengni. „Ég í raun hafna þeim. Ég tálmaði ekki.“
„Ég veit bara hver sannleikurinn er,“ segir hún. „Hann sótti mjög í mig. Hann var ofboðslega hrifinn af mér. Hann var mjög aðgangsharður, svo ekki sé meira sagt. Og fyrir rest, ég bara réð ekki við ástandið, eins og það var.“
Eins og segir í lýsingu á vef Mennta- og barnamálaráðuneytisins er „hlutverk mennta- og barnamálaráðuneytisins að tryggja að menntun, aðbúnaður og réttindi barna á Íslandi séu ávallt í fyrirrúmi“. Málið var tilkynnt til forsætisráðherra fyrir um viku síðan.
„Mér var bara sagt að það hefði kona að nafni Ólöf haft samband við forsætisráðuneytið og beðið um fund,“ segir Ásthildur í viðtali við Vísi. „Og ég var spurð hvort ég þekkti hana og ég sagði nei. Ég vissi ekkert hver þessi kona var og hef aldrei hitt hana.“
„Mér varð illa við af því að ég geri mér grein fyrir hvernig hægt er að matreiða svona og hvernig þetta lítur út. Og það er mjög erfitt að koma réttri sögu á framfæri í fréttum í dag þegar mál standa svona.“
Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi og framkvæmdastjóri Flokks fólksins, grípur inn í viðtalið. „Hún reyndi að komast að því hvaða kona þetta væri og hvað hún vildi,“ sagði Heimir, sem þó var ekki í viðtali.
„Það er nú það fyrsta sem ég gerði,“ segir Ásthildur Lóa. „Ég reyndi að komast að því hvaða kona þetta væri og hvað hún vildi. Hvað hana varðar. Ég held hún sé fyrrverandi tengdamóðir hans, eftir því sem mér skilst.“
„Hún veit ekkert mikið um það,“ segir Heimir Már.
„Við vitum það, hvernig fréttir eru í dag og við vitum að svona mál, ef ég væri áfram ráðherra, þá yrði það dregið upp aftur og aftur og aftur og aftur. Og það yrði í rauninni aldrei neinn vinnufriður fyrir ríkisstjórnina og ekki heldur fyrir málefnunum sem ég brenn fyrir í menntamálaráðuneytinu.“
Komment