
Það ríkti sannkölluð stemmning í Herjólfsdal í gærkvöldi þar sem Þjóðhátíðargestir nutu dagskrár kvöldsins í botn. Hátíðin hófst á stóra sviðinu með VÆB-bræðrum og síðan tók Stuðlabandið við ásamt söngvurunum Röggu Gísla, Selmu Björns og Friðriki Ómar. Hápunktur kvöldsins var þegar Herra Hnetusmjör steig á svið, en í kjölfarið tóku FM95Blö-menn við með Jóhönnu Guðrúnu. Kvöldinu lauk með tónleikum Arons Can, sem samkvæmt yfirlýsingum hans frá því fyrir helgi voru þeir hinir síðustu í bili.

„Það var stórkostlegt að sjá brekkuna lifna við í gærkvöldi. Nú höldum við ótrauð áfram inn í síðasta daginn af þessari Þjóðhátíð sem nú þegar hefur skrifað sig á spjöld sögunnar,“ sagði Jónas Guðbjörn Jónsson, formaður Þjóðhátíðarnefndar, undir morgun. „Ég má til með að ítreka þakkir til allra gestanna fyrir þrautsegju og allra Vestmanneyinganna sem slógu velferðarskjaldborg yfir gestina okkar í gær og fyrri nótt.“
Kvölddagskrá dagsins lofar ekki minna fjöri. Stuðlabandið stýrir henni með tilþrifum og fær til liðs við sig Stefán Hilmarsson, Siggu Beinteins, Emmsjé Gauta, GDRN og sjálfa goðsögnina Björgvin Halldórsson. Þá tekur við hinn rómaði Brekkusöngur undir stjórn Magnúsar Kjartans, brennan verður tendruð og blysin skína á meðan tónlistin hljómar fram undir morgun.
Að lokum barst tilkynning undir morgun frá Herjólfi um að siglingar í Landeyjahöfn hafi hafist að nýju klukkan 5:30 í morgun.
Komment