
Annar tveggja skýrsluhöfunda um jarðgöng sem stuðst var við í samgönguáætlun innviðaráðherra, segir að Mjóafjarðargöng hafi skorað hærra en Fjarðarheiðargöng þegar litið var til arðsemi en að Fjarðarheiðargöng hafi skorað hærra hvað varðaði umferðaröryggi. Þetta sagði hann í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í dag.
Eins og greint hefur verið frá eru Fjarðarheiðargöng slegin út af borðinu í nýju samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar og í stað þeirra á að ráðast í Mjóafjarðargöng. Austfirðingar og þá sérstaklega Seyðfirðingar eru vægast sagt óánægðir með þessa ákvörðun þar sem þeir hafa barist fyrir göngunum í áratugi.
„Niðurstaðan er eiginlega sú að í þessum samfélagslegu þáttum, tengingu svæða og byggðarþróun, að þar gefum við báðum þessum tveimur framkvæmdum fulla einkunn. Þau hafa mjög mikil áhrif á samfélagið, bæði Fjarðarheiðargöng og Mjóafjarðargöng,“ segir skýrsluhöfundurinn Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við viðskiptadeild Háskóla Íslands, í samtali við RÚV og segir höfunda skýrslunnar ekki hafa treyst sér til að segja hvor framkvæmdin hefði meiri áhrif þegar litið væri til þessa þátta.
Alls segir Jón að fjórir þættir hafi verið lagðir til grundvallar við mat á samgöngukostum. Það er arðsemi, slysaþáttur, tenging svæða og markmið yfirvalda. Jón segir í viðtalinu að arðsemin hafi verið metin mikilvægari en umferðaröryggi.
„Í arðseminni koma Mjóafjarðargöngin betur út heldur en Fjarðarheiðargöngin en varðandi umferðaröryggi þá koma Fjarðarheiðargöngin betur út heldur en Mjóafjarðargöngin.“

Komment