
Alma Möller heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita fjármagn til HPV bólusetningar fyrir drengi upp í 18 ára aldur og hefjast bólusetningar næsta vetur en greint er frá þessu í tilkynningu frá stjórnarráðinu.
„Þetta er gríðarlega mikilvæg forvörn gegn krabbameinum og með þessu fjárfestum við í heilsu til framtíðar“ segir Alma.
Bólusetning gegn HPV veirunni hófst hér á landi árið 2011, fyrst eingöngu hjá stúlkum en hefur síðan verið útvíkkuð og fyrir tveimur árum var farið að bjóða slíka bólusetningu óháð kyni fyrir tiltekna aldurshópa.
Samkvæmt tilkynningunni eru HPV bólusetningar mikilvæg leið til að fækka þeim sem fá krabbamein. Bóluefni gegn HPV beindust fyrst og fremst gegn leghálskrabbameini til að byrja með, enda er það langalgengast krabbameina sem tengjast HPV, en bóluefnin hafa sannað gildi sitt gegn HPV sýkingum óháð kyni.
„Krabbamein sem tengjast HPV sýkingum önnur en leghálskrabbamein eru sum algengari hjá körlum en konum, má þar nefna HPV tengd krabbamein í koki. Þess vegna hófust bólusetningar gegn HPV sýkingum óháð kyni hér fyrir tveimur árum og hefur þátttaka drengja sem hefur boðist bólusetningin verið mjög góð hingað til. Nú hefur verið ákveðið að bjóða bóluefnið Gardasil 9 óbólusettum piltum upp í 18 ára aldur næsta vetur, og er unnið að skipulagningu átaks í bólusetningum til að þær nái til sem flestra í árgöngum 2007-2010.“
Komment