
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, mælti í gær fyrir þremur frumvörpum á Alþingi og fjallar eitt þeirra um breytingu á lagabreytingu á sorgarleyfi foreldra.
Samkvæmt stjórnarráðinu er frumvarpinu er ætlað að auka réttindi foreldra enn frekar, meðal annars með því að tryggja þeim foreldrum sem missa maka rétt til sorgarleyfis. Sorgarleyfi er lagalegur réttur foreldra til að fá leyfi frá störfum í kjölfar barnsmissis í sex mánuði og greiðslur til að koma til móts við tekjutap á meðan. Í frumvarpinu er lagt til að sorgarleyfi nái einnig til foreldra sem verða fyrir því áfalli að hjúskapar- eða sambúðarmaki andast. Markmiðið er að styrkja enn frekar stöðu barna og barnafjölskyldna sem verða fyrir áföllum.
„Við kynntum í febrúar viðamikla þingmálaskrá og nú eru frumvörpin eitt af öðru að koma inn í þingið. Þetta sýnir að við í ríkisstjórninni ætlum sannarlega að láta verkin tala,“ sagði Inga.
Hún lagði einnig fram frumvarp um breytingu á lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og sömuleiðis frumvarp til laga um breytingu á lögum um skipulag haf- og strandsvæða.
Komment