
Aðalmeðferð hófst í dag í Héraðsdómi Austurlands þar sem Jón Þór Dagbjartsson er ákærður fyrir að hafa reynt að myrða Hafdísi Báru Óskarsdóttur í skemmu á Vopnafirði í október. Hann neitar sök og segist ekki muna atvikið vegna áfallastreitu. Hafdís Bára lýsti langvarandi ofbeldi í sambandinu og sagði hann hafa ráðist að sér með járnkarl og reynt að kyrkja sig.
Sjá einnig: Manndrápstilraun á Vopnafirði – Sagður hafa reynt að stinga fyrrum sambýliskonu á hol með járnkarli
Auk morðtilraunar er Jón Þór ákærður fyrir kynferðislegt áreiti, líkamsárás á annan mann og vörslu ólöglegra skotvopna. Hann heldur því fram að hann og Hafdís hafi haldið sambandi eftir skilnað og sagðist hafa reiðst þegar hann fann þungunarpróf í ruslinu hennar.
Hann lýsti erfiðri fortíð og minningum úr æsku sem hann segir hafa ýfst upp við fjölmiðlaumfjöllun um Hjalteyrarmálið. Hann sagðist hafa misst minnið eftir að Hafdís hótaði að hann fengi ekki að hitta son sinn. Hann viðurkenndi þó að muna brot úr atburðinum og sagðist aldrei hafa ætlað að bana henni.
Hafdís sagði Jón Þór ekki hafa sætt sig við skilnaðinn og lýsti mikilli stjórnsemi, afbrýðisemi og kynferðislegum þrýstingi í sambandinu. Hún sagði Jón hafa verið rólegur þegar hann réðist á hana, hann hafa reynt að stinga sig og síðan þrengt að hálsi hennar, en vinkona hennar kom að og stöðvaði hann.
Vitni staðfestu frásögn Hafdísar og sögðu Jón Þór hafa viðurkennt að hann ætlaði að „kála henni“. Barnaverndarfulltrúi lýsti honum sem reiðum og sjálfhverfum og mat hann mjög hættulegan.
Komment