
Hvorki Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, né Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra svara spurningum Mannlífs um mögulegar refsiaðgerðir gagnvart Ísrael vegna gegndarlausra árása Ísraelshers á Gaza, sem hófust aftur fyrir alvöru fyrir þremur dögum og hefur kostað yfir 500 manns lífið, þar af um 200 börn.
Fyrir síðustu Alþingiskosningar skrifaði Kristrún Frostadóttir skoðanapistil sem birtist á Vísi en þar fór hún yfir stöðuna á Gaza. Þar sagði hún að yfirvöld á Íslandi ættu að taka ákveðnari skref til stuðnings Palestínu og eiga frumkvæði að því að viðræðum við önnur Norðurlönd um mögulegar efnahagslegar og pólitískar þvingunaraðgerðir gagnvart Ísrael.
Nú þegar Ísraelsher hefur að fullu rofið vopnahléið við Hamas og látið sprengjum rigna yfir Gaza-búa, eftir að hafa brotið vopnahléið vikum saman með minni árásum og skerðingu á lífsnauðsynjum hefur lítið heyrst frá ríkisstjórn Íslands, annað en fordæming utanríkisráðherra og að Inga Sæland, félagsmálaráðherra ætli sér að halda áfram að senda börnum á Gaza ást og kærleik.
Mannlíf sendi fjölmiðlafulltrúum Kristrúnar Frostadóttur og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur spurningar um málið fyrir tveimur dögum síðan og ítrekun í gær. Frá ráðuneytunum ríkir hins vegar hávær þögn og engin svör berast enn.
Eftirfarandi spurningar voru sendar á ráðherrana:
„Í ljósi þess að Ísraelar hófu aftur að láta sprengjum rigna yfir borgara Gaza, hyggst Ísland bregðast við með einhverjum hætti, öðrum en þeim að fordæma fjöldamorðin? Hyggst Ísland beita Ísrael viðskiptaþvingunum eða beita ríkið einhverjum refsiaðgerðum, líkt og forsætisráðherra hefur talað fyrir áður?“
Komment