
Þrátt fyrir að Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og fylgisfólk hennar hafi lagt mikla áherslu á að senda ekki lista á kjósendur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík um helgina, hefur stuðningshópur fyrir Pétur Marteinsson dregið skýrar línur.
Í lista sem stuðningsfólk Péturs byggir á, en hann hafnar ábyrgð á sjálfur, er hann í fyrsta sæti. Í öðru sæti er Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, fyrrverandi talskona Stígamóta. Í þriðja sæti er Bjarnveig Birta Bjarnadóttir, rekstrarstjóri Tulipop úr Grafarvoginum. Í fjórða er félagi hennar úr ungliðahreyfingunni, norskættaði stærðfræðikennarinn Stein Olav Romslo. Í því fimmta er þá Rúnar Logi Ingólfsson, verslunarstjóri og menntaður arkitekt, og því sjötta er Valný Óttarsdóttir, iðjuþjálfi í Breiðholtinu.
Á slíkum lista er því lítið pláss fyrir frambjóðendur eins og Skúla Helgason borgarfulltrúa, Magneu Marinósdóttur, sérfræðing í alþjóðaöryggismálum, Guðmund Inga Þóroddsson, formann félags fanga, og Dóru Björt Guðjónsdóttur borgarfulltrúa, sem tók það veðmál að yfirgefa Pírata eftir að hafa bakkað frá formannsframboði þar.
Veðbankar Epicbet hafa spáð Heiðu Björg sigri, en það hefur nú snúist við þegar þetta er skrifað. Ekki er víst að stuðningur jafnaðarfélagsins Rósarinnar og gamla Þjóðvakans nægi Heiðu Björg eftir að 2.800 manns nýskráðu sig í Samfylkinguna í smölun fyrir prófkjörið.
Komment