
Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá því í gærkvöldi og í nótt er greint frá því að lögreglan hafi verið kölluð til vegna umferðaróhapps þar sem bifreið var ekið aftan á aðra bifreið. Grunur vaknaði þá um að annar ökumaðurinn væri undir áhrifum áfengis og var sá aðili handtekinn og fluttur á lögreglustöð.
Tilkynnt var um líkamsárás í miðbænum. Aðili var fluttur á lögreglustöð og látinn laus eftir skýrslutöku.
Þrír einstaklingar voru handteknir vegna hótana og ýmissa brota, m.a. vörslu fíkniefna, vopnalagabrota ofl. Þeir voru vistaðir í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna æsts manns á hóteli en þar hafði hann kastað til innanstokksmunum. Hann var vistaður í fangaklefa vegna ástands að sögn lögreglu.
Lögregla var kölluð í heimahús þar sem ölvunarástand hafði ollið því að einn gestkomandi var ekki velkominn lengur. Lögreglan fjarlægði einstaklinginn af heimilinu.
Lögregla var kölluð til vegna líkamsárásar en þar hafði gestur á skemmtistað ráðist á dyravörð.

Komment