
Lögreglan á Norðurlandi eystra óskar eftir upplýsingum um unga stúlku sem varð fyrir húsbíl á gangbraut við Hjalteyrargötu á Akureyri á föstudaginn 25. júlí, skömmu fyrir klukkan 15.
Samkvæmt tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar hljóp stúlkan, sem var í svörtum buxum og bleikri peysu, í veg fyrir bifreiðina sem ók í norðurátt. Hún skall á bílnum, féll í götuna en hljóp síðan í átt að strætóskýli. Hún virðist hafa verið í hópi með öðrum börnum á aldrinum 7–12 ára. Vitni ræddi við stúlkuna, en hún vildi hvorki fá aðstoð né gefa upp nafn sitt.
Talið er líklegt að stúlkan hafi hlotið einhverja áverka í árekstrinum og vill lögreglan ná tali af henni.
Þeir sem geta veitt upplýsingar um málið eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444 2800 eða með tölvupósti á [email protected].
Komment