
Magnús Þór Torfason, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, hefur verið ráðinn forseti Félagsvísindasviðs skólans til næstu fimm ára en greint er frá þessu í tilkynningu frá HÍ. Hann var einn þriggja umsækjenda um starfið og tekur við því 1. júlí næstkomandi.
Magnús lauk BS-prófi í rafmagns- og tölvuverkfræði og tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og til viðbótar cand.sci. gráðu í fyrrnefndu greininni frá HÍ. Hann er enn fremur með m.phil. gráðu og doktorspróf í stjórnun frá Columbia Business School í Bandaríkjunum.
Hann starfaði sem lektor við Harvard Business School á árunum 2010-2014. Hann var ráðinn lektor við Háskóla Íslands árið 2014, fékk framgang í starf dósents árið 2020 og í starf prófessors árið 2024. Magnús hefur verið forseti Viðskiptafræðideildar frá því í fyrrasumar.
„Félagsvísindasvið og deildir þess gegna lykilhlutverki í að efla skilning á íslensku samfélagi og þeim viðfangsefnum sem það stendur frammi fyrir. Sviðið er í einstakri stöðu til að takast á við áskoranir samtímans og ég hlakka til að vinna með öflugu starfsfólki að því að auka framlag rannsókna og kennslu til samfélagsheilla, bæði hérlendis og á alþjóðavettvangi,“ segir Magnús um framtíðina.
Félagsvísindasvið er eitt fimm fræðasviða Háskóla Íslands og það fjölmennasta.
Komment