
Margrét Jóhanna Heinreksdóttir, áður Margrét Rasmus Bjarnason, lést á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð á Akureyri 3. desember síðastliðinn, á sínu nítugasta ári. Margrét átti langan og fjölbreyttan starfsferil; hún starfaði meðal annars sem blaðamaður á Morgunblaðinu, fréttamaður hjá RÚV, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands og lauk starfsævinni sem lektor við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri. Akureyri.net sagði frá andlátinu.
Margrét fæddist í Reykjavík 1. apríl 1936. Foreldrar hennar voru Ástríður Anna Guðmundsdóttir og Hendrik Rasmus. Hún ólst einnig upp hjá stjúp- og fósturforeldrum og átti bæði samfeðra, sammæðra og fóstursystkini.
Maki hennar var Oddur Jón Bjarnason, og áttu þau dæturnar Önnu Heiði og Emblu Eir. Barnabörn Margrétar eru Fjóna Fransiska Ford, Alexandra Ýrr Ford og Robert Tandri Francis, og langömmubarn hennar er Rafael Rúnar Robertsson Francis. Þau Margrét og Oddur skildu.
Margrét lauk stúdentsprófi frá MR árið 1955 og síðar lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands. Hún stundaði fjölbreytt nám á löngum tíma, meðal annars í heimspeki, tungumálum, fjölmiðlun og mannréttindum. Árið 1999 lauk hún LLM-meistaranámi í alþjóðlegum mannréttindalögum frá Háskólanum í Lundi.
Hún starfaði á ýmsum sviðum opinberrar þjónustu og innan dómskerfisins, meðal annars sem dómarafulltrúi, settur héraðsdómari og lögfræðingur hjá sýslumannsembættum. Hún starfaði einnig fyrir UNIFEM í Kósóvó og tók virkan þátt í félags- og réttindamálum, meðal annars í stjórn Amnesty International, Hjálparstofnunar kirkjunnar og Mannréttindastofu Íslands.
Margrét ferðaðist víða um heim, meðal annars vegna starfa sinna og heimsótti meðal annars Bandaríkin, Rússland, Kína, Afríku og fjölmarga aðra staði.

Komment