
Matvælastofnun (MAST) hefur sektað fiskeldisfyrirtækið Kaldvík um 500 þúsund krónur fyrir að hafa ekki fjarlægt veika fiska úr eldiskvíum í Berufirði í janúar og febrúar.
Eftirlit MAST sýndi að þúsundir svokallaðra „sveimara“, fiskar sem eru veikir og þróttlitlir, voru í hverri kví, og engar tilraunir höfðu verið gerðar til að fjarlægja þá.
Einnig voru gerðar athugasemdir við sótthreinsunarbrest og að notkun sópunarneta hefði verið vanrækt. Kaldvík mótmælti skýrslu MAST og sagði meðal annars að veðurskilyrði hefðu hindrað aðgerðir og að fjöldi veikra fiska væri líklega ofmetinn. Fyrirtækið benti á að starfsfólk hefði gert sitt besta og bætt verklag síðar.
MAST hafnaði öllum andmælum og sagði Kaldvík hafa haft nægan tíma og tækifæri til að bregðast við ástandinu. Í nýrri skýrslu frá mars kemur fram að fyrirtækið hafi gert úrbætur og bætt búnað og vinnulag. Þar eru engar athugasemdir gerðar.
Komment