
Í dag var maður handtekinn eftir að hafa verið með ofbeldistilburði í miðbæ Reykjavíkur. Var hann fluttur á lögreglustöðina við Hlemm þar sem tekin var af honum skýrsla. Við leit á manninum fundust meint fíkniefni og má hann búast við kæru vegna vörslu þeirra.
Bíll valt í íbúðargötu í miðborginni en ökumaður kenndi sér ekki meins eftir veltuna. Grunur vaknaði um að ökumaðurinn hafi verið undir áhrifum fíkniefna og var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar á málinu.
Tilkynning barst um lausa hunda sem voru að angra vegfarendur í Laugardalnum. Rætt var við eiganda hundanna og honum gert grein fyrir að taumskylda væri í Reykjavík og að hann skildi virða það.
Lögreglumenn urðu varir við rásandi aksturslag á bifreið við hefðbundið eftirlit. Reyndist ökumaðurinn sviptur ökuréttinum og var grunaður um akstur undir áhrifum bæði áfengis og vímuefna. Var hann fluttur á lögreglustöð í hefðbundið ferli.
Frá Breiðholtinu barst tilkynning um tvo menn sem væru að sparka í hurð. Lögreglan fann kauðana í nágrenninu og við öryggisleit kom í ljós að annar þeirra var með steikarhníf á sér og hinn með kjötöxi. Þá fundust aukreitis fíkniefni á öðrum þeirra. Voru þeir handteknir og fluttir á lögreglustöð í skýrslutöku. Mega þeir eiga von á vænlegri sekt fyrir vopnaburðinn.
Ökumanni á Vínlandsleið var gefið merki um að stöðva akstur við hefðbundið eftirlit. Ók hann þá yfir gangstéttarkant og inn í runna þar sem hann stöðvaði bifreiðina. Var hann sterklega grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Þá reyndist hann aldrei hafa öðlast ökuréttindi. Var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöð í hefðbundið ferli.
Komment