
Jarðskjálftar sem mælst hafa innan Ljósufjallakerfisins á Snæfellsnesi síðustu ár benda til kvikuhreyfinga frekar en hefðbundinna flekahreyfinga. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Páls Einarssonar, jarðeðlisfræðings hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. RÚV segir frá málinu.
Samkvæmt skýrslunni hefur skjálftavirkni aukist markvert frá árinu 2021 og sérstaklega frá ágúst í fyrra. Skjálftarnir eru litlir, sá stærsti mældist 3,2 að stærð, og upptök þeirra liggja í 15–20 km dýpi, sem bendir til hreyfinga kviku í jarðskorpunni eða efsta hluta möttulsins. Einnig hafa stuttar óróahviður verið skráðar síðustu mánuði.
Fjórar sviðsmyndir hugsanlegs goss
Engar heimildir eru um sambærilega skjálftahrinu á þessum slóðum síðustu áratugi. Í skýrslunni segir að þessi virkni geti hugsanlega endað án frekari atburða, en einnig sé möguleiki á kvikuhlaupi eða eldgosi. Fjórar sviðsmyndir eru dregnar upp fyrir hugsanlegt gos, þar sem líklegast þykir að kvika komi upp innan vatnasviðs Grjótárdals. Ef hraun rynni í Grjótárvatn eða Háleiksvatn gæti það valdið sprengivirkni og öskumyndun, þó væru þær hamfarir líklega fremar vægar miðað við ummerki fyrri gosa.
Síðasta eldgos á svæðinu varð fyrir um 1.100 árum og voru þau gos lítil hraungos með gosstöðvar að mestu í dölum.
Aukið eftirlit nauðsynlegt
Skýrslan leggur áherslu á þörf fyrir aukið eftirlit og rannsóknir, þar á meðal fleiri skjálftamæla, betri vöktun á aflögun jarðskorpunnar og aukna upplýsingagjöf til íbúa. Einnig er lögð áhersla á gerð viðbragðsáætlana, þar sem ekki er hægt að útiloka eldgos á næstunni, þótt óvissan um tímaramma sé enn mikil.
Komment