
Anna Kristjánsdóttir, fyrrum vélstjóri, hefur lengi verið ein af fyndnustu Íslendingunum og heldur úti daglegum stöðufærslum um líf sitt en hún býr um þessar mundir á Tenerife.
Í nýrri færslu greinir Anna frá áhugaverðri sögu af hjónum sem komu til Kanaríeyja.
„Ég heyrði af miðaldra íslenskum hjónum sem tóku þá skyndiákvörðun um daginn að kaupa sér far til Gran Canaria án þess að hafa bókað hótel fyrst,“ skrifaði Anna um málið. „Þegar komið var til Maspalomas voru flest hótel uppbókuð, en loks fundu þau eitt hótel með laus herbergi. Þegar þangað var komið reyndist þetta vera dæmigert strákahótel þar sem sætir strákar gefa hverjum öðrum hýrt auga. Hinn miðaldra eiginmaður er gamall íþróttamaður og því er eiginkonan á fullu þessa dagana að draga athygli strákanna frá eiginmanninum,“ sagði vélstjórinn káti.
„Ekki orð um það meir.“
Í færslunni greinir hún einnig frá áhuga sínum á EM í handbolta en hún horfði á fyrstu tvo leikina með öðru auganu að eigin sögn og fagnaði sigri Íslands og Færeyja.
„Best að taka það fram í leiðinni að ég hefi lítið vit á handbolta og miðað við öll slagsmálin sem eiga sér stað á vellinum, væri ég búin að reka alla leikmennina útaf í hálfleik nema kannski markmennina ef ég sæi um dómgæsluna, en sem betur fer dæmi ég ekki leiki í handbolta.“

Komment