
Árni Tryggvason varð vitni að ótrúlegu atviki þegar hann var í hjólreiðatúr í dag en frá því segir hann á Facebook. Þegar hann var að hjóla beint fyrir neðan Grafarvogskirkju verður hann var við busl í sjónum. Sér hann þar hvar selur gerir sér lítið fyrir og ræðst á æðarfugl. Árni var fljótur að hugsa og greip símann og náði að smella af nokkrum ótrúlegum ljósmyndum af atganginum og myndskeiði, þar sem selurinn sést leika sér að fuglinum.
Í samtali við Mannlíf segir Árni að hann hafi því ekki náð að mynda upphaf baráttunnar, þar sem selurinn renndi sér á fuglinn þar sem hann sat á steini í flæðamálinu. Segir Árni að þetta hafi staðið yfir í um fimm mínútur. „Að lokum dró selurinn fuglinn niður eftir að hafa leikið sér að honum í nokkurn tíma,“ sagði Árni í samtali við Mannlíf.

Komment