
Stefán Jón Hafstein segir ekkert um það hvort hann hafi verið beittur þrýstingi vegna ákvörðunar sem stjórn RÚV tekur á morgun varðandi þátttöku Íslands í Eurovision í Austurríki á næsta ári.
Stjórnarformaður RÚV, Stefán Jón Hafstein, segir í skriflegu svari til Mannlífs að honum hafi borist fjölmörg erindi sem hann vilji ekki tjá sig um opinberlega. Svar hans barst eftir að Mannlíf sendi eftirfarandi spurningu á stjórnarmeðlimi RÚV:
„Hafið þið orðið fyrir pressu frá ríkissjónvarpi Ísraels eða annarra handbenda ríkisstjórnar Ísraels? Hvað með pressu frá öðrum löndum sem hafa ákveðið að sniðganga Eurovision á næsta ári?“
Spurningin var send í gær en Mannlífi hefur borist svör frá Diljá Ámundadóttur Zoega, Heimi Má Péturssyni og formanni stjórnarinnar Stefáni Jóni Hafstein.
Heimir Már og Diljá hafa ekki borist neinn þrýstingur frá Ísrael eða þeim löndum sem hafa nú þegar ákveðið að sniðganga Eurovision á næsta ári en svar Stefáns Jóns var annars eðlis. Stjórnarformaðurinn segist hafa borist fjölmörg erindi, sem honum finnst ekki við hæfi að birta, nema við sérstakar aðstæður.
„Mér hafa borist fjölmörg erindi sem ég tjái mig ekki um opinberlega. Í hverju tilviki ræður sendandi hvort hann opinberar skilaboð til mín. Mér finnst ekki við hæfi að birta svona erindi sem beint er til mín nema við alveg sérstakar aðstæður.“
Aðspurður hvort sá samstöðufundur sem boðaður hefur verið á morgun fyrir utan Ríkisútvarpið, gæti flokkast undir “alveg sérstakar aðstæður“, sem gætu kallað á að birtingu slíkra erinda, svaraði Stefán Jón: „Ég á erfitt með að ímynda mér það!“

Komment