
Önnu Kristjáns leiðist hrein ósköp um þessar mundir en hún er að stíga upp úr veikindum. Segist hún ekki nenna neinu, hvorki fara á barinn né út með hundinn, sem hún þó á ekki.
Í nýjustu dagbókarfærslu sinni sem hún birti á Facebook talar húmoristinn og vélstjórinn Anna Kristjánsdóttir um það hvað henni leiðist mikið, nú þegar hún er að stíga upp úr erfiðum veikindum.
„Dagur 2312 – Mér leiðist.
Síðan ég veiktist um daginn hefi ég hvergi á mér heilli tekið. Það er allt ómögulegt. Það er þó ekki þunglyndi, fremur værðarleysi. Ég fæ mig ekki til að gera hlutina. Ég nenni ekki út í göngu, ekki út í búð, ekki út með hundinn, ég á engan hund, ekki á krána, ekki neitt. Fer meira að segja að sofa klukkan sjö á kvöldin.“ Þannig hefst færsla Önnu en hún hefur skrifað dagbókarfærslur inn á Facebook allt frá því að hún flutti til Tenerife. Því næst segist Anna ekki hafa smakkað deigan dropa í heilar þrjár vikur:
„Það má kannski nefna í þessu sambandi að það eru komnar þrjár vikur síðan ég smakkaði síðast áfengi og því hvorki mætt á Búkkann né Babylon. Kannski kominn tími til að hvíla sig á áfengi um sinn án þess þó að fara á snúruna.“
Anna segir að lyfjunum sem hún hafi fengið á dögunum gegn þvagrásarbólgu, hafi fylgt ýmsar aukaverkanir:
„Þegar ég fékk lyf gegn þvagrásarbólgu um daginn hélt ég að ég væri að taka lyf gegn þvagrásarbólgu og ekkert annað. Það reyndist tálsýn. Eftir það átti ég átti erfitt með að aka bíl, blóðþrýstingurinn niður úr öllu valdi og ég varð gjörsamlega sinnulaus um allt og alla, meira að segja um hundinn. Núna viku eftir að ég hætti að taka þau, er ég aðeins að lagast, blóðþrýstingurinn farinn að hækka á ný og ég gæti farið út með hundinn ef ég ætti hund og ég þarf að fara í búðir að kaupa jólagjafir.“

Komment