
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, hélt í gær ræðu í Þrándheimi um bláa hagkerfið en greint er frá því í tilkynningu frá stjórnarráðinu. Fundurinn var hluti af ríkisheimsókn forseta Íslands til Noregs og var Hákon krónprins Noregs viðstaddur.
„Það er alþekkt að því geta fylgt erfiðar áskoranir fyrir þjóðir að búa yfir miklum auðlindum. Það hefur átt við Íslendinga eins og aðra,“ sagði Daði í ræðu sinni. „Í upphafi gáfum við okkur að áhrif mannsins á þessi vistkerfi væru lítil, en sú forsenda hefur reynst röng á Íslandi eins og annars staðar.“
Nefndi ráðherrann að spennandi þróun væri til staðar í bláa hagkerfinu og nefndi Kerecis á Ísafirði sem dæmi um slíkt og að tækifæri væru að skapast á Íslandi í sjálfbæru og umhverfisvænu fiskeldi.
„Þá er mikilvægt að Ísland taki áfram virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi til að vernda hið alþjóðlega kerfi sem byggst á sameiginlegum reglum en ekki afli hins sterka. Við eigum allt undir því að alþjóðasamskipti byggist á reglum og samningum. Það kerfi hefur tryggt yfirráð okkar yfir auðlindum Íslands og við getað breytt þeim í varanleg verðmæti fyrir íslensku þjóðina.“

Komment