
Í kjölfar samkomulags um vopnahlé á Gaza er hafin ein umfangsmesta mannúðaraðgerð allra tíma, þar sem Rauði krossinn gegnir lykilhlutverki. Íslenski Rauði krossinn hefur nú sett af stað sérstaka neyðarsöfnun til stuðnings íbúum svæðisins.
„Við hvetjum landsmenn og íslensk fyrirtæki til að leggja söfnuninni lið og taka þannig þátt í því lífsbjargandi starfi sem nú fer í hönd á Gaza,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.
Almennir borgarar á Gaza hafa í tvö ár þurft að þola stanslausar og vaxandi hörmungar sem hafa svipt um 1,8 milljón manns heimilum sínum og lífsviðurværi. Að minnsta kosti um 67 þúsund manns hafa verið drepin, þúsundir hafa særst og hungursneyð, sem bitnar harðast á börnum og eldra fólki, geisar.
„Sorg, streita og sultur hefur verið nístandi veruleiki fólksins á Gaza,“ segir Gísli Rafn. Þau þurfi tafarlaust á skjóli, mat og vatni, lyfjum, læknisaðstoð og sálrænum stuðningi að halda. Þar komi Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn sterkur inn. „Aðstæðum þeirra verður ekki umbylt á einni nóttu og aðgerðir okkar og annarra mannúðarsamtaka og stofnana munu standa næstu vikur og mánuði,“ segir hann. Þær þoli hins vegar enga bið. Lina verði mestu þjáningarnar þegar í stað og aðstoða alla við að ná fótfestu að nýju.
Að lokum hvetur Gísli Íslendinga til að sýna samhug: „Nú breiðum við út faðminn og sýnum hvað í okkur býr,“ segir hann í áskorun sinni til fólks og fyrirtækja að leggja neyðarsöfnun félagsins lið.
Allar upplýsingar um söfnunina má finna á raudikrossinn.is. Hægt er að styrkja með því að hringja í:
📞 904-1500 (1.500 kr.)
📞 904-2500 (2.500 kr.)
📞 904-5500 (5.500 kr.)
Einnig má senda styrk í gegnum Aur á @raudikrossinn eða 1235704000, eða leggja inn á söfnunarreikning 0342-26-12, kt. 530269-2649.
Komment