Í dagbók lögreglu frá því í gærkvöldi og í nótt er greint frá því að tveir rúmenskir karlar hafi verið handteknir grunaðir um vasaþjófnað í miðborginni. Þeir komu til landsins deginum áður og grunar lögreglu sterklega að þeir hafi komið einvörðungu til Íslands til þess að fremja auðgunarbrot. Þeir voru vistaðir í klefa og verða mál þeirra rannsökuð betur á dagvinnutíma.
Tilkynnt var um mann í annarlegu ástandi vera að öskra í íbúðagötu. Sá reyndist vera víðáttuölvaður ferðamaður sem gat ekki gert grein fyrir hver hann væri né hvar hann væri til húsa. Hann gat ekki valdið sjálfum sér eða að öðru leyti sýslað með eigin tilveru og var því vistaður í klefa.
Ökumaður var stöðvaður í umferðinni. Hann reyndist vera undir áhrifum fíkniefna þar sem fíkniefni fundust einnig í bifreiðinni. Hann var grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna og því vistaður í klefa.


Komment