
Trausti Breiðfjörð Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segir Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, oddvita flokksins í Reykjavík, hafa hunsað ábendingar frá sér og öðrum um Gunnar Smára Egilsson, formann framkvæmdastjóra flokksins, og hans framkomu gagnvart öðrum flokksmeðlimum.
Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum og á netinu eftir að Karl Héðinn Kristjánsson sagði sig úr kosningastjórn Sósíalistaflokksins í gær
„Ástæðan er einföld: Ég get ekki lengur starfað innan forystu sem hunsar lýðræðislega gagnrýni, viðheldur óheilbrigðri menningu og refsar þeim sem benda á vandamálin,“ skrifaði Karl á samfélagsmiðla og nefndi Gunnar Smára sérstaklega í því samhengi.
Gunnar Smári gaf síðar út að boðað yrði til skyndifundar og var sá haldinn í gærkvöldi.

Undir orð Karls tekur Trausti og nefnir ýmis dæmi um slæm samskipti sem hann hefur átt við Gunnar Smára á undanförnum árum. Ekki nógu með það þá kemur fram í athugasemd sem Trausti skrifaði á Facebook-hóp flokksins fyrr í dag að hann sé einnig ósáttur sína með viðbrögð Sönnu en hún hafnaði ásökunum Karls í gær og tók stöðu með Gunnari Smára.
„Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“
„Svo það komi hér fram þá sagði ég þér frá því hvernig framkoma hans væri,“ skrifaði Trausti til Sönnu á samfélagsmiðlum í dag. „Ekki í jafnmiklum smáatriðum og hér, en ég lét þig vita að framkoma hans væri fráhrindandi. Þetta var nokkrum vikum áður en ég ákvað að biðjast lausnar úr borgarstjórn. Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja þá. Og það er tilfinning fleira fólks sem hefur sagt þér frá einelti sem það hefur orðið fyrir. Eins og þú hundsir ábendingarnar, segir kannski að þetta sé nú leiðinlegt, en stendur samt áfram með honum. Það sárnar mér. Varðandi skilaboðin, þá hef ég ekki áhuga á því að grafa þau sérstaklega upp. Ég man að hann sagði þetta og talaði um þetta. Fleiri félagar geta staðfest að hann talaði um þetta við þá líka. Að hann vildi ekki að við værum að pæla í þessu máli.“
Komment