
Össur Skarphéðinsson spyr í nýrri Facebook-færlu, hvenær það muni sjóða upp úr hjá Sjálfstæðisflokknum.
Stjórnmálarefurinn og fyrrum ráðherrann Össur Skarphéðinssons skrifaði færslu á Facebook rétt í þessu þar sem hann veltir fyrir sér stöðu Sjálfstæðisflokksins. Færslan hefst á eftirfarandi hátt:
„Hvenær sýður upp úr?
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur nýlokið hreinsunaraðgerðum í Valhöll, sópað burt starfsmönnum sem höfðu stýrt vinnu flokksins og kosningum í áratug, á miklu niðurlægingarskeiði þar sem flokkurinn hefur fallið niður um margar deildir. Í staðinn hefur hún sett „sitt“ fólk.
Þetta er fullkomlega eðlilegt og rökrétt. Nýr formaður á það skilið að fá að byrja með hreint borð. Bæði á flokkskontórnum, en ekki síst í stjórn þingflokks. Þetta er hins vegar mjög erfitt, einkum í stofnanavæddum flokki einsog Sjálfstæðisflokknum, þar sem smákóngar og valdaklíkur hafa hreiðrað um sig.“
Össur segir að utan frá hafi hinum nýja formanni tekist vel til en að miðað við Facebook-færslu fyrrverandi þingkonu Sjálfstæðisflokksins sem birtist um helgina, sé sannleikurinn þó allt annar:
„Utan frá virtist þetta takast nýjum formanni þokkalega. Það var engu líkara en Sjálfstæðisflokkurinn, sem eftir landsfundinn og heiftarleg átök um formennsku er a.m.k. tvíklofinn ofan í rót, hefði ákveðið að fylkja sér að baki formanninum og gefa henni ráðrúm til að sýna hvað í henni býr.
En hafi mér, eða öðrum orðið á sú skyssa að halda að friður sé brostinn á í Sjálfstæðisflokknum var okkur kippt rækilega inn í veruleikann á sunnudagskvöldið. Gamall og virtur þingskörungur, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrum formaður þingflokksins, sýndi þá ofan í bullsjóðandi djúp flokksins með eftirfarandi texta á facebook:
“Ef það reynist rétt að formaður Sjálfstæðisflokksins vilji skipa nýjan formann þingflokksins en sitjandi þingmenn komi í veg fyrir það, þá er illa komið fyrir Sjálfstæðisflokknum, en ég ætla rétt að vona að þetta sé orðið á götunni en ekki sannleikanum samkvæmt”.“
Segir Össur að Ragnheiður virðist hafa heimildirnar á hreinu en hún studdu Guðrúnu í formannskjörinu opinberlega.
„Að sönnu er Ragnheiður Ríkharðsdóttir byssa af því tagi sem bæði miðar og skýtur sjálf. En hún virðist hafa heimildir fyrir því að Guðrún Hafsteinsdóttir – sem hún studdi dyggilega opinberlega – vilji reka Hildi Sverrisdóttur úr embætti þingflokksformanns, en þingflokkurinn komi í veg fyrir það. Samkvæmt því kemur nýr formaður ekki áformum sínum fram af því meirihluti þingflokksins er henni andsnúinn.“
Að lokum segir Samfylkingarráðherrann fyrrverandi að kjósendur eigi rétt á að fjölmiðlar fái svör við ýmsum spurningum varðandi stöðuna í Sjálfstæðisflokknum. Kemur hann með nokkrar spurningar, til að hjálpa fjölmiðlum:
„Kjósendur eiga vitaskuld rétt á að fjölmiðlar upplýsi um stöðuna í stærsta flokki stjórnarandstöðunnar. Er það rétt að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi ekki lengur traust á Hildi sem þingflokksformanni? Er rétt að Hildur þráist við að fara? Er rétt að nýkjörinn formaður sé í slíkum minnihluta í eigin þingflokki að hún nái ekki fram þeim breytingum á stjórn þingflokksins sem hún telur nauðsynlegar til að koma flokknum aftur á kjöl?
Þetta er náttúrlega næsti bær við það að þingflokkurinn standi í björtu báli.“
Komment