
Heimir Már Pétursson ber saman fluttning gyðinga frá Þýskalandi á tímum Nasista og fyrirhuguðum flutningi Ísraela á Palestínumönnum frá Gaza en í báðum tilfellum var sagt að það yrði gert til að tryggja öryggi þeirra.
„Þegar gyðingar voru fluttir austur á bóginn frá Þýskalandi og öðrum ríkjum vestur Evrópu á sínum tíma, var þeim einnig sagt að það "væri gert til að tryggja öryggi þeirra." Í austurvegi biði þeirra vinna og nýtt líf. - Allir vita hvernig það fór.“ Þannig hefst Facebook-færsla aðstoðarmanns Ingu Sæland, Heimis Más Péturssonar sem hann birti í gær, eftir að Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels tilkynnti um fyrirhugaðan fjöldabrottflutning Gaza-búa.
Segir Heimir Már það vera ótrúlegt að fylgjast með Ísraelsstjórn endurtaka þjóðarmorð.
„Það er ótrúlegt að fylgjast með stjórnvöldum í ríki gyðinga endurtaka þjóðarmorð, svelta íbúa Gaza í umkringdu gettói (eins og gyðingar voru í í Varsjá) og ætla nú að neyða íbúana til að yfirgefa heimkynni sín. - Þetta er svo grimmt að maður þarf að minna sig á að þetta er ískaldur raunveruleiki en ekki einhver hryllingsmynd.“
Að lokum segir hann að smáflokkar á ysta væng öfga hægrisins lengi hafa ráðið ríkjum í Ísrael en stóru flokkarnir hafi þó hingað til geta haft eitthvað taumhald á þeim. Nú sé það hins vegar ekki raunin og að öll mennskan sé nú horfin þaðan.
„Öfgafullir smáflokkar í Ísrael hafa alltaf ráðið ferðinni í ísraelskum stjórnmálum en forysta stóru flokkanna hefur þó lengst af náð að hafa eitthvert taumhald á þeim. Nú hafa þessir öfgafullu smáflokkar (sem ekki er hægt að mynda meirihlutastjórn án) hauk í horni hjá forystu Likudbandalagsins og öll mennska hefur verið látin fara lönd og leið.
Smánarblettur á sögu mannkynsins.“
Komment