Elliðavatn og fjöllin blasa við úr stórum stofugluggunum. Á leðurstól situr glæsileg kona, Eva Bryngeirsdóttir. Það er stutt í brosið. Eiginmaðurinn, Kári Stefánsson, fyrrverandi forstjóri deCODE, hafði ekið á rauðum, sportlegum jeppa frá bílastæðinu við húsið þegar blaðamaður kom akandi að því. Þennan mann elskar Eva. Án efa hafa margir skoðanir á aldursmuninum, sem eru 38 ár, en ástin spyr ekki um aldur. Og án efa eru margir forvitnir um ungu konuna sem giftist Kára sem gert hefur svo margt fyrir Íslendinga og fleiri svo sem í kórónuveirufaraldrinum. En þá er einmitt gott að hún sjálf segi sína sögu.
Við tvær erum einar í stóru, nútímalegu húsinu. Og tveir kettir. Það eru högnarnir Garpur og Keli.
Garpur gengur til okkar. Lætur ekki í sér heyra.
„Það eru tvær mínútur þar til matarskammtarinn hans pípir þannig að hann er mjög varkár núna og passar að hann fái örugglega að éta. Garpur er nákvæmlega eins og Garfield, Grettir. Hann vill liggja í leti. Hann er augljóslega kóngurinn á heimilinu og hann elskar að éta og lífið snýst um það.“
Og Garpur gengur að skammtaranum og byrjar að éta.
„Ég átti alltaf hund en kunni ekkert á kisur en svo kom ég hingað og Keli, þessi svarti og hvíti, ákvað að ég yrði kisumanneskja. Ég er dolfallin yfir köttunum. Það er ekki aftur snúið. Þetta er yndislegt.“
Svona byrjar viðtalið. Það er strax augljóst að húsmóðirin er einstaklega elskuleg og einlæg. Og hamingjusöm. Og það er góður andi á glæsilegu heimilinu sem er eins og listaverk.
Með ADHD og leiddist aldrei
Eva ólst upp í Smáíbúðahverfinu og var tæplega tíu ára þegar foreldrar hennar skildu og eftir það bjó hún mest hjá móður sinni og systkinum en hún á tvö alsystkini, tvö hálfsystkini í móðurætt og tvö hálfsystkini í föðurætt ásamt stjúpbróður.
„Ég var mjög hugmyndarík ung dama. Mér leiddist aldrei og ég gat alltaf fundið eitthvað að gera. Ég var krakkinn sem fór út að morgni til og svo kom ég heim í lok dags. Ég var virkur krakki,“ segir Eva sem var greind með ADHD árið 2023. „Ég fann upp á öllu mögulegu.“
Hún segir að ADHD hafi háð sér varðandi það sem gerðist innra með sér. Hún talar um flækju í huganum. Hún ofhugsaði allt of mikið. „Ég fúnkeraði og ég lærði í skólanum en ég lærði ekki vel heima.“ Hugurinn var annars staðar. „Já, og út um allt.“
Hana dreymdi á tímabili um að verða sálfræðingur vegna þess að hún var alltaf tilbúin til að ræða um hlutina og gat séð þá frá fleiri en einu sjónarhorni. „Ég var svona sálfræðingurinn í vinahópnum, gat rætt um allt og það var ekkert sem var óþægilegt eða asnalegt.
Ég gat ekki fylgt hópnum. Ef aðrir voru að gera eitthvað þá fannst mér ég örugglega ekki eiga að gera það sama. Mér finnst ég ekki þurfa að fylgja,“ segir hún og kímir.
„Vinkonur mínar fóru í Versló og ég hugsaði með mér að mig langaði ekki til að fara í þann skóla. Þannig að ég sótti um í MR og MH sem varaskóla. Ég komst hvorki inn í MR né MH og mamma mín sat uppi með að koma mér í skóla.“
Eva hóf svo um haustið nám við FG þar sem hún þekkti engan. Hún var á íþróttabraut en henni fannst vera gaman að læra um líkamann en svo fann hún sig ekki á þeirri braut.
„Öll menntaskólaárin afmarkast af klassísku ADHD. Ég fór síðan á málabraut og síðan á félagsfræðibraut og ég útskrifaðist af þeirri braut. Og ég er með aukaeiningar af því að ég var búin að skipta svo oft um braut. Ég get lofað þér því að náms- og starfsráðgjafinn í skólanum fagnaði því örugglega þegar ég útskrifaðist,“ segir Eva og hlær. „Ég var alltaf hjá henni. Ég var einhvern veginn út um allt og mér fannst margt vera áhugavert en ég vissi ekki hvað ég ætlaði að gera með þetta allt. Ég ræddi það við kennara þegar ég var á íþróttabraut að mig langaði ekki til að verða íþróttakennari heldur frekar einkaþjálfari og hann leyfði mér að gera verkefni í takt við það.“
Eva vann í skóbúðum með menntaskólanáminu og hún segir að sér hafi fundist samskiptin við viðskiptavini vera skemmtileg. „Svo elska ég skó.“
Þaðan sem blaðamaður situr sést Keli hlaupa fyrir utan stofuna. Hvar Grettir er, það er spurning. Hann er allavega búinn að éta.
Föðurmissir

Faðir Evu, Bryngeir Guðjón Guðmundsson, eignaðist nýja konu, eignaðist með henni tvö börn og gekk syni hennar í föðurstað. Eva var 18 ára þegar hann fór að veikjast og segir hún að hann hafði fundið fyrir veikindum í einhverja mánuði en aldrei hafði fundist hvað var að.
„Svo kom í ljós briskrabbamein og það var að fara á fjórða stig. Ég var mjög „busy“ í lífi mínu 18 að verða 19 ára, mig langaði að vera í meira sambandi en það var svo rosalega mikið að gera hjá mér.“
Eva var samt sem áður þó nokkuð hjá föður sínum sem krakki. „Það átti að reka mig úr FG af því að ég var með svo lélega mætingu. Ég sagði að ég væri augljóslega að ganga í gegnum mikið erfiði og fékk mætingasamning.
„Briskrabbamein er ekkert grín.“
Briskrabbamein er ekkert grín. Það er rosalega erfitt. Maður var 19 ára að ganga í gegnum flókinn missi og þá skildu mann engir á þessum aldri þar sem þeir höfðu ekki lent í þessu sjálfir. Og fólk á erfitt með að mæta öðrum sem eru að syrgja.“
Eva teygði sig til föður síns í þessum aðstæðum, með þeirri aðferð sem hún treysti sér til.
„Það var margt sem ég vildi segja við pabba og ég skrifaði honum tölvupóst. Ég hafði svo mikla þörf fyrir að tjá mig. Ég skrifaði til dæmis að ég elskaði hann en þetta segir maður ekki auðveldlega 19 ára í svona flóknum aðstæðum. Ég hef ekki hugmynd um hvort pabbi las tölvupóstinn.“
Faðir Evu lést 9. september 2006. Fyrsta barn Evu átti síðan eftir að fæðast 9. september, árið 2015.
Trúður á Mallorca
„Hvað núna?“ segir Eva að hafi komið í hugann eftir útskrift. Stúdentshúfan var komin á kollinn. Hún var ekki búin að finna sinn stað í lífinu en var í langtímasambandi.
„Ég var á fimmta ári í sambandi og ég hugsaði með mér að ég myndi ekki halda áfram að vinna í skóbúðum. Það hlyti að vera eitthvað næst.
Mig langaði til að verða au pair og var búin að finna fjölskyldu á Ítalíu og negla viðtal sem ég fór í en svo allt í einu áttaði ég mig á því að mig langaði ekkert til að verða au pair. Ég kunni ekkert á börn þá. Ég skoðaði alþjóðlegar atvinnusíður og sá meðal annars auglýst eftir fólki í jarðaberjatínslu,“ segir Eva og hlær.
„Það hlutu að vera einhver ævintýri fram undan. Hótelkeðja á Spáni óskaði eftir starfsfólki og ég hugsaði með mér „af hverju ekki?“. Ég sendi inn umsókn og var hringt í mig einn daginn þegar ég var í skóbúðinni og þau buðu mér í Skype-viðtal. Þau vildu í kjölfarið fá mig á tveggja vikna inntökunámskeið á Mallorca.“
Eva fór til Mallroca, fór á námskeiðið og fékk starf. „Þetta var mikil reynsla fyrir unga konu. Ég bar ábyrgð, var á eigin vegum og ég þurfti að láta hlutina ganga upp. Ég get alveg sagt þér það að þetta voru átök.“
Svo fór Eva að vinna sem skemmtikraftur fyrir hótelkeðjuna. Hún dansaði til dæmis fyrir krakka á sviði, lék trúð og sá um leiki fyrir krakka í sundlaug meðan hrunið varð og Ísland var ekki lengur til í bankanum, eins og hún orðar það, þannig að hún þurfti að senda móður sinni pening heim í umslagi til að borga af bílnum sem hún átti á íslandi.
Og á sólareyjunni Mallorca dvaldi Eva í sjö mánuði og kom heim reynslunni ríkari. Slitnað hafði upp úr sambandi hennar og kærastans á þessum tíma.

Tanntæknir
Eftir heimkomuna þurfti unga konan að byrja á nýjum kafla í lífi sínu. Hún hugsaði með sér að hún þyrfti að læra meira. Hún vildi fara í tannlæknanám og tók nokkra kúrsa á heilbrigðisdeild FÁ svo sem líffæra- og lífeðlisfræði og meðal annars áfanga þar sem nemendur lærðu að greina tennur.
„Við þurftum líka að kryfja og krufði ég hjarta. Ég komst að því að mér fannst þetta vera mjög heillandi og spennandi og sótti ég svo um og fór í tannlæknanám. Ég komst fljótlega að því að ég væri engan veginn samkeppnishæf en sjö nemendur af um fimmtíu komust í gegn og ég hafði engan grunn í eðlisfræði eða efnafræði. Ég hélt samt aðeins áfram að mæta og tálga tennur en mér fannst það vera mjög gaman. Ég tók ekki einu sinni prófin og kláraði ekki önnina.“
Eva fór þá að hugsa um hvað hún gæti gert næst. „Þetta er klassískt ADHD. Alltaf að leita og hugsa hvað ég eigi að gera næst.“
„Þetta er klassískt ADHD.“
Hún sendi póst til tanntæknideildar FÁ og spurði hvaða kúrsa hún þyrfti að taka til að klára nám í tanntækni. Í ljós kom að vegna fyrra náms þurfti hún ekki að taka svo marga kúrsa. „Þetta var ein bókleg önn og svo tvær verklegar sem voru úti í Tanngarði.“
Þegar hún var búin með bóklegu fögin og áður en hún kláraði verklega þáttinn bjó hún um tíma á Eskifirði ásamt þáverandi kærasta sínum og fór að vinna í álverinu á Reyðarfirði. „Ég sótti um að verða almennur iðnaðarmaður. Ég var sett í steypuskálann sem vinnur allt álið. Þetta er svo gjörsamlega eins og úr einhverri bíómynd. Ég var með 23 tonn í brúkrana að hella fljótandi áli með fjarstýringu hangandi utan á mér. Þetta er svo ólíkt því sem mér hefði dottið í hug að ég myndi gera.“
Eva viðurkennir að hún hafi stundum orðið hrædd. Og þarna vann hún í tæpt ár.
Síðar kláraði hún tanntækninámið og vann um tíma sem tanntæknir.
„Ég var kasólétt að vinna á tannlæknastofu þannig að eldri strákurinn minn er búinn að sparka í nokkra kúnna í stólnum í gegnum bumbuna,“ segir hún og hlær.
Móðurmissir
Móðir Evu, Dóra Elísabet Sigurjónsdóttir, veiktist af framheilabilun á þeim tíma þegar Eva vann í álverinu á Reyðarfirði og segir Eva að hún hafi orðið skrýtin í hegðun. Hún var veik í mörg ár.
„Ég myndi ekki óska neinum að ganga í gegnum þau erfiði. Hún missti málið mjög snemma. Þetta var hræðilegt,“ segir Eva með áherslu. „Hún var svo ung þegar þetta gerðist að hún passaði hvergi í kerfið. Hún var allt of ung til þess að fara á elliheimili. Hún gat gert ýmislegt þótt hún gæti ekki tjáð sig. Þetta var svo vond staða. Við vorum oft leitandi að henni hér og þar og einu sinni var hringt í okkur en þá hafði einhver fundið hana í Fjarðarkaupi í Hafnarfirði en hún bjó í Grafarvogi. Þetta var svakalega erfitt ástand í mörg ár. Hún fór einu sinni í bílaumboð og var allt í einu búin að borga inn á einhvern bíl. Hún keypti allt mögulegt inn á heimilið og fullt af því sama. Það meikaði ekki sens. Þetta var brútalt.
Ég áttaði mig á því að það var ekki langur tími sem ég hafði til að eiga einhver samskipti við hana þannig að ég ræddi við barnsföður minn og við tókum ákvörðun um að ég færi til Reykjavíkur; ég var að fara að eyða síðustu mómentunum sem ég gat mögulega haft einhverjar tengingar við hana. Ég ætlaði að búa heima hjá mömmu og stjúppabba.
„Manneskja sem fær þennan sjúkdóm missir persónueinkenni sín.“
Þetta var átakanlegt. Manneskja sem fær þennan sjúkdóm missir persónueinkenni sín. Hún verður bara allt önnur manneskja og það getur komið upp reiði og alls konar tilfinningar. Þetta var krefjandi. Ég reyndi að búa heima og hjálpa til eins lengi og ég gat en svo tók ég ákvörðun um að fara að leigja.
Þetta hafði mikil áhrif á mig. Rosaleg,“ segir Eva með áherslu, „vegna þess að þetta segir manni hvað lífið er. Maður getur haft alls konar væntingar til þess en maður mun aldrei stjórna öllu. En maður getur stjórnað hvernig maður bregst við því sem kemur upp.“
Svo hringdi Kári
Evu og alsystkini hennar langaði til að vita hvort sjúkdómurinn væri ættgengur „Auðvitað kom hræðsla í mig við að horfa upp á allt þetta og ég hugsaði með mér hvort ég ætti eftir að lenda í þessu. Það var óþægileg tilfinning. Ég sendi þess vegna árið 2018 tölvupóst á aðalnetfang deCODE og spurði hvort fyrirtækið hafi rannsakað ættgengi Pick's desease,“ segir Eva en það er sjúkdómurinn sem móðir hennar var með. „Svo hringdi Kári Stefánsson í mig. Hann sagði að þau hefðu ekki fundið ættgengi sjúkdómsins en þau vildu gjarnan fá að raðgreina okkur systkinin og skoða þetta. Ég bara vó! Bara Kári að hringja í mig! Ok.“ Eva hlær.
„Hann er bara heitur!“
„Við fengum strimla til að taka DNA-sýni, munnvatnssýni. Svo fórum við systkinin á fund á skrifstofu Kára þegar hann ætlaði að segja okkur niðurstöðurnar. Hann var í gallaskyrtunni sinni og það var allt á rúi og stúi á skrifstofunni. Og hann ræddi við okkur. Það er svo fyndið að segja frá því að þegar við vorum komin fram eftir að hafa talað við hann sagði ég við systkini mín: „Hann er bara heitur!“ Eva hlær. „Systkini mín voru vön því að ég segði ýmislegt óritskoðað; sem krakka fannst mér til dæmis Bruce Willis vera brjálæðislega flottur. Þannig að þetta var ekkert nýtt. Bróðir minn hló að mér.“ Eva er augljóslega ástfangin. „Kári er rosalega sjarmerandi,“ segir hún með áherslu. „Ég tók eftir honum. Ég finn svo mikla orku frá fólki og ég hafði setið þarna og „já“!“. Hún hlær.
Systkinin eru ekki arfberar og það var mikill léttir. „Maður vill ekki ganga í gegnum þetta og öll erfiðin sem fylgja því og hugsa svo „er ég næst?“. En að sjálfsögðu hvílir þetta alltaf á manni.“
Eva flutti svo aftur austur og kom svo aftur í bæjarferð þegar móður hennar hafði hrakað. „Ég hugsaði með mér að ef hún væri að fara að kveðja þá ætlaði ég að vera á staðnum.“
Afmælisdagur Evu rann upp haustið 2018. Og á þeim degi lést móðir hennar og var fjölskyldan hjá henni.
„Ég hugsaði með mér að það hlyti að vera einhver meining á bak við það að hún dó á afmælisdaginn minn. Ég hugsaði með mér að ég ætlaði alltaf að fagna lífinu á afmælisdaginn. Þetta hafði mjög djúpstæð áhrif á mig og ég fór mikið að pæla í allri heilsunni. Þarna byrjaði í rauninni lífsstílsbreyting mín. Ég var búin að eignast tvö börn, ég hafði fitnað og lífsstíllinn var ekki lengur eins og hann var þegar ég var yngri. Það var allt endurskoðað í lífi mínu.“
Sorgin
Hvað er dauðinn í huga Evu? Tekur eitthvað við þegar fólk deyr?
„Mig langar til að trúa því. Ég vil allavega ekki útiloka það og ég sagði strákunum að amma þeirra og afar séu englar. Og ég hef sagt þeim að allir lifi áfram í hjartanu þeirra og að þeir finni tengingu við þau með því að hugsa fallega til þeirra. Yngri sonur minn hefur spurt hvort þau fylgist alltaf með sér. Ég sagði svo ekki vera. Þetta er svolítið flókið.
Tíminn læknar engin sár. Klárlega ekki. En við lærum að lifa með þessu og það skiptir máli þegar við gefum hlutum þýðingu, það skiptir máli hvernig við tökumst á við hlutina. Mér fannst ég geta fundið mikla merkingu í öllu. Í staðinn fyrir að leita út í svona erfiðleikum þá leitaði ég inn á við af því þar liggur krafturinn. Mér finnst við vera rosalega voldug. Ég er með miklar tilfinningar.“
Eva viðurkennir að hún sé næm.
„Mér finnst ég finna orku frá fólki.“ Það nefndi hún varðandi Kára. „Manneskja getur staðið fyrir framan mig og sagt eitthvað og ég finn ef hún meinar það ekki sem hún segir. Ég hef til dæmis stundum ekki orku til að fara á skemmtanir þar sem er fullt af fólki. Og mér finnst vera þreytandi aðstæður þar sem fólk stundar ákaft spjall á yfirborðinu, þetta sem við köllum „small talk“.
Það sem mér finnst óspennandi er ef fólk horfir kannski á mig og ímyndar sér eitthvað út frá því sem það sér en þekkir mig ekki neitt og er með einhverja hugmynd um mig út frá útlitinu einu og sér. Yfirborðið segir ekki mikið. Það er ekki þægilegt.“
Hreyfingin
Eva var 31 ára þegar móðir hennar lést. Eins og hún sagði fór hún að hugsa meira um heilsuna og hún fór að stunda meiri hreyfingu. Yngri sonur hennar var þá eins árs og hún var búin að vera með hann á brjósti og hún talar um að hún hafi verið full af hormónum og allt of þung. „Eftir að ég eignaðist yngri strákinn minn fór ég upp í 76 eða 77 kíló. Það er allt of mikið fyrir svona litla manneskju eins og ég er,“ segir Eva sem segist vera 1,64 metri á hæð.
„Ég var svo þrútin. Meira að segja andlitið á mér var allt öðruvísi. Mér fannst karakterinn vera sterkur en mér fannst líkaminn vera eins og byrði utan á mér. Mér fannst hann ekki vera í takt við mig og það var mjög óþægileg tilfinning. Ég var í svo lélegu formi og það var vont. Ég var með tvo litla, hressa og kraftmikla krakka og var sjálf ekki í stakk búin til að díla við það. Það var hræðileg tilfinning. Mér fannst ég ekki ráða við þetta.“
Evu leið illa.
Í kjölfars lífstílsbreytingarinnar missti hún tæp 20 kíló. Fyrstu átta til tíu kílóin fóru á nokkrum mánuðum aðeins með breyttu mataræði og smá aukinni hreyfingu heima.
Hún talar um að þegar fólk byrjar að hreyfa sig sé klassískt að það leggi áherslu á yfirborðslega þætti eins og það að vilja líta vel út, vera grennra og finnast það vera kynþokkafullt. „Svo þegar við förum af stað og erum að gera þetta rétt, án þess að ætla að svelta okkur, förum við að finna fyrir innri styrk og krafti.“
Garpur kemur gangandi og leggst ofan á annan fót blaðamanns og liggur þar eins og skata í langan tíma.
„Honum finnst svolítið gott að kúra á löppum. Litli kall,“ segir Eva blíðum rómi. „Hann sækist mikið í lappir. Hann vill miklu frekar að honum sé klappað með fótum heldur en höndum.“
Nýkomin með greiningu
Þegar hefur komið fram að Eva var greind með ADHD árið 2023 og telur hún að hún sé mjög líklega á einhverfurófi. Báðir synir hennar eru með ADHD og á einhverfurófi og hún sagði við sálfræðing sem hún fór til vegna ADHD-greiningar að hún vildi ekki að það yrði athugað hvort hún sé á einhverfurófinu vegna þess að það myndi ekkert þýða fyrir sig. „Það breytir engu. Ég er eins og ég er.“
Hún er spurð hvers vegna hún haldi að hún sé á einhverfurófi. „Ég tengi við rosalega margt. Fyrir utan að báðir strákarnir mínir eru báðir með ADHD og á einhverfurófinu er einhverfa mjög tíð í fjölskyldunni.
Ég er til dæmis með ósveigjanlegan ramma og mér finnst það vera mjög óþægilegt þegar hlutir taka skyndilega breytingum. Ég vil hafa hlutina á vissan hátt. Ég get orðið rosalega næm ef það eru læti og hávaði í kringum mig. Ég fór á sínum tíma í kulnun og við það fannst mér allt magnast upp hjá mér. Þegar ég fór í verslunarmiðstöðvar setti ég heyrnartól í eyrun og sólgleraugu og labbaði þannig í gegn. Ég finn rosalega fyrir öllu. Það fer allt í gegnum mig. Eins og þegar ég hlusta á tónlist. Við Kári förum alltaf á Sinfó á fimmtudögum. Öll tónlistin fer algjörlega í gegnum mig. Beint inn í hjartað á mér. Það er svo fyndið. Við Kári vorum bæði með heilsuúr á okkur eitt skiptið þegar við fórum á sinfóníutónleika. Hann mældist eins og í slökun en ég mældist eins og ég stæði í átökum. Tónlistin hefur svo mikil áhrif á mig.“
Í einkaþjálfaranám
Eva og barnsfaðir hennar slitu sambúð 2019 eftir tíu ára samband. Þau bjuggu þá á Eskifirði og flutti hún í annað húsnæði í bænum. „Ég var í fínni skrifstofuvinnu og mér gekk vel og svo skall Covid-heimsfaraldurinn á og maður var skíthræddur. Maður vissi ekkert. Yngri strákurinn hafði greinst með lækkun í MBL-gildum sem á að hafa þau áhrif að kerfið hans berst ekki jafnvel við sýkingar. Hann varð reyndar ekkert veikari en bróðir hans á fyrstu árunum. Ég útbjó svo vinnuaðstöðu heima og við tókum strákana af leikskólanum í einhvern tíma. Þetta var álag.“
Þarna upplifði Eva sig standandi á tímamótum.
„Ég vann í Excel alla daga og þá kom næsti punktur eins og eftir menntaskólann: Hvað núna? Hvað tekur við? Þetta er ekkert „ég“ að vera skrifstofudama sem situr á bak við tölvuna í Excel alla daga. En ég geri allt vel sem ég geri, alveg sama hvort það er tölvuvinna eða vinna í álveri. Ég er þannig innrætt. Ég fer „all in“ í allt sem ég geri. Mér gekk vel en ég fór að velta fyrir mér draumunum. Hvað langaði mig til að gera? Ég fór að skoða einkaþjálfaranám í Íþróttaakademíu Keilis og skráði mig í tveggja anna staðlotunám sem ég hóf haustið 2020.
Mér fannst þetta vera hrikalega spennandi. Allt um líkamann heillar mig hvort sem það er líkaminn sjálfur, hugsun eða hegðun.“
Fór í kulnun
Eva samdi við vinnuveitanda sinn um að fara í 75% vinnu og var því einstæð móðir með tvö börn í 75% vinnu og 100% námi. „Það var svolítið verkefni og ég var alltaf að keyra í bæinn til að fara í þessar lotur og spurði barnsföður minn hvernig ég ætti að púsla þessu saman. Hann spurði hvort ég þyrfti ekki að flytja í bæinn svo ég gæti klárað námið. Það voru og eru góð samskipti á milli okkar.“
Eva ók þvert yfir landið í einum rykk.
„Ég fékk að vinna út frá útibúinu á höfuðborgarsvæðinu en fyrirtækið er með skrifstofur bæði á Reyðarfirði og þar. Þetta gerðist allt mjög hratt. Öllu var pakkað niður og flutningabíllinn kom í hádeginu á þriðjudegi en ég hafði lagt af stað keyrandi ein með strákana eldsnemma um morguninn. Á miðvikudagsmorgni komu allir kassarnir í íbúð í Kópavogi. Þetta var svolítið ýkt. Ég keyrði í einum rykk með tvo litla stráka. Þetta eru 730 kílómetrar. Ég skilaði svo verkefni í skólanum á föstudeginum og tók próf á laugardeginum. Þannig að þetta var brjáluð keyrsla,“ segir hún og á ekki bara við ökuferðina frá Eskifirði.
„Ég var á þessum tíma á lokakúri á dekutan-húðlyfjakúr en eftir sambandsslitin fór húðin í andlitinu á mér gjörsamlega í rugl. Ég varð einn daginn í vinnunni allt í einu rennandi blaut í andlitinu af olíu og í kjölfarið fékk ég mjög slæmar þrymlabólur.“
Álagið var of mikið og líkaminn lét vita af því.
Eva segir að í enda kúrsins tíðkast að tvöfalda kúrinn í lokin en að læknir fyrir austan hafi sagt að hún gæti það ekki vegna þess að hún væri of létt fyrir þann skammt. Hún fór svo til annars læknis í Reykjavík sem sagði henni að það væri komið að lokum á þessum lyfjakúr og því yrði að tvöfalda skammtinn í lokin. Þá komu fljótt meiri aukaverkanir sem höfðu áhrif á liðina sem varð til þess að hún varð að draga úr hreyfingu.
„Smátt og smátt sagði taugakerfið „ekki meir, ekki meir“.“
„Ég man eftir því að ég sat einn daginn heima í tölvunni og var að skrifa og var farin að gleyma hlutum. Ég mundi ekki einu sinni hvernig ég átti að tengja yfir á hinn skjáinn. Smátt og smátt sagði taugakerfið „ekki meir, ekki meir“.“
Það var þarna sem Eva nauðhemlaði.
„Ég brást í grát einn daginn þar sem ég sat við tölvuna að vinna heima. Ég vissi ekki af hverju. Ég hringdi í vinnuveitanda minn og sagði að ég væri veik. Ég talaði svo við heimilislækninn og sagðist ekki vita hvað væri í gangi. Ég sagði að ég hefði misst báða foreldra mína, ég hefði gengið í gegnum sorg og erfiðleika en nú væri eitthvað ennþá meira að. Læknirinn tók á móti mér og sagði svo að ég væri í 100% námi, 75% vinnu og einstæð móðir með leikskólabörn og að dæmið gengi ekki upp. Hann sagði að ég væri komin í kulnun og að það væri verkefni að koma til baka. Hann sagði að þetta yrði langhlaup, ekki spretthlaup. Og hann bara stöðvaði mig.“
Þetta var í apríl 2021 og á sama tíma var Eva að ljúka seinni önninni í einkaþjálfaranáminu og segist hún ekki muna eftir seinasta áfanganum.
Erfið endurkoma
„Ég var alltaf að reyna að koma til baka. Ég var ekkert tilbúin í það. Ég vildi alltaf fara af stað og vildi ekkert bíða en það virkaði ekki þarna. Þarna sagði líkaminn bara „það er this way or no way“. Ég kláraðist algjörlega. Ég hafði enga stjórn á líkamanum. Ég sótti strákana í leikskólann og svo kom ég inn um dyrnar, settist í útifötunum í sófann og datt út. Ég bara sofnaði. Ég hafði enga stjórn þannig að ég fór í djúpa holu.
Læknirinn sagði að hreyfing væri það sem ég þyrfti á að halda til að vinna á streitu. Hann sagði að ég ætti að hreyfa mig á hverjum degi í tuttugu mínútur til hálftíma og að það væri mitt meðal hvern einasta dag, bara ekki af sömu ákefð og áður fyrr.
Hreyfingin er það sem hélt mér á lífi. Þessi litla daglega hreyfing gerði það að verkum að andlega hliðin kom hægt og bítandi til baka. Og það var rosalega eriftt að díla við þetta af því að það skildi þetta enginn að einstaklingur í veikindaleyfi gæti stundað daglega líkamsrækt.
Ég hafði aldrei upplifað þunglyndi en þetta var klárlega þunglyndi þegar ég fór á botninn í kulnun. Ég hrundi alla leið. Mér fannst eins og ég hefði dáið og mér fannst eins og ég hefði fengið þarna tækifæri til að lifna aftur við; mér fannst eins og þarna væri sénsinn. Ég gat átt líf aftur. Ég þurfti að velja vel hvað ég vildi gera því ég hafði svo litla orku. Ég skoðaði allt í lífi mínu svo sem í hvað ég var að verja tíma. Ég fór að skoða hvað skiptir mig máli, hvað nærir mig, hvað mér finnst gott, hvar mín grunngildi eru og í hvaða samskiptum ég vil eiga. Mér fannst eins og ég hefði fengið tækifæri til þess að lifa á ný. Mér fannst ég upplifa aftur allan heiminn í kringum mig með því að eiga stundir með strákunum, finna gleðina og gefa mér tíma í að fíflast með þeim og setja tónlist á og dansa og flippa. Lífið er öll þessi míkró-móment, labba úti og sjá litina breytast í kringum sig. Maður þarf að skynja þetta.
Þarna byrjaði ég að stunda hugleiðslu og datt algjörlega inn í þann heim að skoða allt þetta andlega. Það var algjör gjöf fyrir mig en á sama tíma var það svolítið flókið vegna þess að mér fannst ég verða öðruvísi en allir í kringum mig. Mér fannst eins og atriði sem skiptu mig máli væru almennt ekki það sem fólk í kringum mig væri að pæla í. Mér fannst enginn skilja hvernig fókusinn minn í lífinu væri þannig að ég einangraðist svolítið fyrir vikið. Mér fannst ekki gott að leita í hvaða félagsskap sem er. Það var margt sem breyttist við þessa kulnun.“
Kynntist sjálfri sér
Eva segist hafa verið eini starfsmaðurinn hjá fyrirtækinu í starfinu sem um ræðir og enginn kom alfarið í hennar stað á meðan hún var í veikindaleyfi. „Í hvert skipti sem var fundað og talað við mig var ég ekki í ástandi til að geta tjáð mig um það hvenær ég héldi að ég kæmi til baka. Ég gat ekki svarað því. Ég vissi það ekki. Ég gat svo illa tjáð mig vegna þess að vanlíðan sem fylgir því að fara svona djúpt niður er ólýsanleg. Maður lítur kannski eins út á yfirborðinu en undir því er maður á bólakafi og getur ekki tjáð sig. Maður var ekki að ganga á fulde fem þannig að ég gat eiginlega ekki tjáð mig og þeir sátu eftir í lausu lofti.“
Eva segist lítið hafa gert á þessum tíma í veikindaleyfi og mánuðunum eftir það annað en að komast í gegnum verkefni dagsins.
„Við spyrnum okkur upp aftur.“
„Ég var alveg einangruð. Ég gerði allt rétt, ég svaf og hreyfði mig, en ég átti erfitt með öll félagsleg samskipti og ég fór í verslunarmiðstöðvar með sólgleraugu og með í eyrunum og ég vildi helst ekki tala við fólk. Ég brast í grát yfir engu.
Það var mikið álag að vera svona ein og rúlla öllum boltum. Reyndar er það alveg þekkt að foreldrar barna með einhverfu lendi í kulnun. Þau eru oft og tíðum flókið verkefni. Það endaði þannig að ég horfði í spegil og mér fannst ég ekki einu sinni þekkja manneskjuna sem ég sá í speglinum. Ég var bara aftengd. Þetta var rosalega vondur staður að vera á. Ég er svo þakklát fyrir það að heimilislæknirinn horfði á mig eins og hann gerði og beindi mér í rétta átt. Ég er svo þakklát fyrir það að fá hreyfinguna þarna.“
Eva var búin að vera í veikindaleyfi frá vinnu í nokkrar vikur áður en hún fór af stað í 50% starfshlutfall. „Ég fór í raun af stað áður en ég réði við það og endaði aftur í veikindaleyfi þegar mér var tæknilega sagt upp þar sem starfið mitt var flutt aftur austur.
Ég hef engar vondar tilfinningar í garð fyrirtækisins og mér finnst ég ekki hafa verið svikin. Það væri mjög gott ef við í samfélaginu gætum hannað eitthvað til þess að að grípa fólk sem fer í kulnun.“
Eva fór á atvinnuleysisbætur og sótti hún um að taka þátt í frumkvöðlaverkefni þannig að í staðinn fyrir að fá bætur fékk hún laun við að þróa eigið starf. Þetta var árið 2023. „Þetta var skemmtilegt og það var gott að eitthvað svona tæki við. Mistökin við það þegar fólk fer í kulnun er að festast á botninun. Ég spyr fólk sem fer langt niður hvað það geri þegar það nær botninum. Við spyrnum okkur upp aftur. Þannig að ég gerði það klárlega og þetta var gaman.“
Eva þróaði starf sem einkaþjálfari sem býður upp á þjálfun á netinu.
„Ég var einstæð í fjögur ár eftir sambandslitin og þarna var ég að læra inn á sjálfa mig og hvað ég vil, hvað ég þarf, hverjar vætingar mínar eru og ýmislegt annað sem ég held ég hafi bara aldrei raunverulega pælt í áður sem er örugglega afleiðing af því að missa báða foreldra. Ég vissi alveg hvað mig langaði að upplifa og ég áttaði mig á því að þegar maður tengist hjartanu sínu þá fer maður að átta sig á því hvað maður má biðja um. Fólk er svo hrætt við skuldbindingar. Það eiga allir að vera bara vinir og þóknast hver öðrum með einhverjar grunnþarfir. En þetta er ekki nóg fyrir mig. Mig langaði í fjölskyldu. Mig langaði að upplifa fullt af hlutum.“
Hún dokar við og hugsar sig um.
„Og fólk gleymir oft þegar um hjarðhegðun er að ræða að það þarf ekki að fylgja henni. Það má segja „nei“ og að þetta sé ekki fyrir mann alveg sama hvað það er. Við höfum þetta vald þegar við lærum að vera samkvæm sjálfum okkur.“
Hreyfingin
Eva vill leggja mikla áherslu á hreyfinguna og koma þeim skilaboðum til fólks hvað hún gerir mikið fyrir fólk.
„Þetta er lífið fyrir mér. Hreyfing er mér svo mikilvæg. Ég fór að hugsa um útlit mitt, en mig langaði ekki að vera eins og ég var, og ég fann kraft. Svo allt í einu gat ég mótað líkama minn og þetta varð spennandi. Mér fannst það gaman. Mér fannst ég vera „powerful“ að geta mótað líkamann og mér fannst í raun og vera á tímabili eins og ég væri að skapa list. Ég gat mótað vöðva. Svo varð ég svo háð því að fá þessa sprengju sem kom í líkamann,“ segir hún og á við gleðihormón sem veita vellíðan við áreynslu. „Þetta er svakalegt kikk. Ég finn og tek á því og þetta er allt ég. Þetta eru vöðvarnir mínir, líkaminn og ég er að hreyfa þetta allt. Mér finnst það vera svo gott. Ég sé heiminn með öðrum augum þegar ég er búin að hreyfa mig.
Mér finnst litir vera fallegri og mér finnst vera auðveldara að díla við allt í kringum mig. Heimurinn okkar er það sem skynfæri manns geta skynjað þannig að hver og einn er í raun og veru að upplifa sinn eigin heim. Og við höfum tækifæri til að skapa okkar eigin heim með því að gera svona hluti rétt. Með því að borða vel, borða það sem líkaminn þarf á að halda, og gera okkur kleift að hreyfa okkur á þennan hátt. Það þarf líka að sofa vel og vinna með innra sjálfið. Og þá er maður að skapa miklu fallegri mynd fyrir sig.“
Eva fór að vinna sem einkaþjálfari á netinu og er með heimasíðuna evabryngeirs.com
„Ég hef nánast bara þjálfað á netinu. Ég hef bara gert prógrömm fyrir einstaklinga sem þeir mæta svo sjálfir með á stöð.
Svo fór ég í samstarf með vinkonu minni, Söru Barðdal, og það er mjög skemmtilegt að vinna með henni. Saman höfum við verið með skemmtileg námskeið sem eru með mun dýpri samskipti við kúnnann.“
Eva segist vinna minna sem einkaþjálfari í dag. „Ég er aðallega núna að hjálpa manninum mínum við alls konar verkefni og hlúa vel að fjölskyldunni.“
Þess má geta að Eva er með jóganidra-kennararéttindi en hefur aldrei unnið sem jógakennari.
„Ég fókusera líka á þætti eins og álag, streitu og svefn og slökun til að ná sér niður. Það er mér mjög mikilvægt. Við hjónin drekkum hvorugt og það er mikilvægur þáttur í okkar sambandi. Og þetta er atriði sem mig langar til að koma meira út í samfélagið; að fólk átti sig á þessu atriði. Þegar fólk hugsar um áfengisvanda þá einblínir það á það þegar áfengi er virkilega farið að hrjá líf fólks. Ég vil ekki bara horfa á hvenær þetta er orðið vandamál hjá fólki heldur á áhrifin sem það er að valda að fá sér sér eitt eða tvö glös. Ég veit ekki hvort ég gæti átt maka sem drykki áfengi. Þannig að það er stórkostlegt að fá að upplifa að vera í svona sambandi; við erum bara samtaka.“
Væri þetta raunhæft?
„Hann er bara heitur!“ hafði Eva sagt við systkini sín eftir fund með Kára Stefánssyni, þáverandi forstjóra deCODE, fyrir tæpum áratug. Hún vissi þá ekki hvað örlögin ætluðu þeim. „Mér hefði aldrei dottið þetta í hug fyrir tíu árum,“ segir hún og hlær.
Hún hafði samband við hann árið 2023 þegar hún var að byggja upp fyrirtækið sitt.
„Mig vantaði bara að rúlla boltanum af stað og ég hugsaði með mér að ég gæti haft samband við einhvern og kynnt vinnuna mína. Ég var búin að vera að hanna stórt og flott námskeið og þróa leiðir til að aðstoða náið einstaklinga og fyrirtæki. Kári sýndi þessu nú ekki mikinn áhuga verð ég að segja,“ segir hún og hlær, „en honum fannst þetta vera áhugavert. Hann bauð mér í kaffi og það var síðar sem hann lýsti yfir þörf sinni fyrir ráðskonu á heimilið en kona hafði verið að þrífa hjá honum sem hætti störfum og hann vantaði einhvern til að reka heimilið.“
Samhliða því að vinna við fyrirtækið sitt fór Eva sem sé í byrjun árs 2024 að reka heimili Kára auk þess að elda fyrir hann nokkrum sinnum í viku.
Þau töluðu við hvort annað eins og vinir og henni leið vel í návist hans. Kunningsskapur varð að vinskap.
„Ég fann orkuna áður en hann kom heim.“
„Mér leið eins og ég væri að elda og eiginmaður minn væri að koma heim. Ég fann orkuna áður en hann kom heim. Þetta var allt sem mig langaði til að upplifa; mig langaði í fjölskyldu og mig langaði í eiginmann. Vá hvað þetta var gott. Þarna sátum við strákarnir mínir með honum við matarborðið að borða saman kvöldmat.“
Þau fóru snemma árs að æfa saman á líkamsræktarstöð. Hún segir þau eiga svo margt sameiginlegt hvað lífsstíl varðar. „Við vorum farin að eyða svo miklum tíma saman. Við vorum alltaf saman. Við bara pössuðum saman. Svo horfði ég svo mikið á hann og hvernig hann virkar. Hann minnir mig svo á son minn í hegðun. Hann Kári er klárlega á einhverfurófinu. Það er enginn vafi. Ég þekkti svo einkennin svo sem hvernig hann fer afsíðis þegar hann er í margmenni. Ég skildi hann svo. Mér fannst hann vera svo áhugaverður.“
Vináttan þróaðist í ást. 38 ára aldursmunur er á hjónunum og þegar Eva gerði sér grein fyrir að hún væri kolfallin fyrir Kára hringdi hún grátandi í vinkonu sína og spurði: Má þetta?
„Ég er þakklát fyrir það að ég náði að kynnast honum á persónulegum nótum, sem einstaklingnum sem hann er, en ekki opinberu persónunni því það er það sem ég féll fyrir. Ef hann hefði nálgast mig í ræktinni hefði ég verið „ha?“. Það hefði ekki orðið til þess sem við erum í dag. Ég var að hlúa að honum og heimilinu. Þannig kynntist ég honum.
Eva þagnar íbyggin.
„Þetta var ekkert plan. Þetta átti ekkert að gerast. Bara engan veginn. Þetta bara gerðist. Mér líður eins og ég hafi alltaf þekkt hann og ég er 100% viss um að við áttum að hittast. Ég sótti í hann, við sóttumst svo mikið í hvort annað. Það er svo gaman að hlusta á hann. Hann er rosalega sjarmerandi og mig langaði bara að vera í kringum hann.“
Amor hitti þau bæði í hjartastað og þau byrjuðu að vera saman.
„Hann varð líf mitt,“ segir Eva og kímir. „Við mátuðum lífið og hann var líka heima hjá mér. Þetta er svolítið flókið. Maður hoppar ekkert í svona með allan þennan aldursmun. Áttum við samleið? Var þetta raunhæft? Máttum við þetta? Var þetta skynsamlegt? Við fórum í gegnum þetta.“
Þögn.
„Þegar á botninn var hvolft hugsaði ég með mér að ef ég fyndi allar þessar tilfinningar til hans væri ég þá trú sjálfri mér að leyfa mér ekki?“
Eva og synir hennar tveir fluttu inn á heimili Kára síðla sumars og svo bað Kári Evu um að giftast sér. Og hún sagði „já“.
Eins árs brúðkaupsafmæli
Eva og Kári gengu í hjónaband 22. nóvember í fyrra og klæddist brúðurin glæsilegum, hvítum brúðarkjól. Þau eiga því eins árs brúðkaupsafmæli um það leyti sem þetta viðtal er birt. Það kallast pappírsbrauðkaup.
Eva segir að brúðkaupsdagurinn hafi verið yndislegur. „Bróðir minn keyrði mig í kirkjuna og hann talaði um að ég væri rólegasta brúður sem hann hafði nokkurn tímann séð. Ég sagði bara að ég gæti ekki verið vissari um að það sem ég var að gera væri rétt þannig að ég var pollróleg. Ég var að springa úr gleði. Þetta var bara yndislegt,“ segir Eva og brosir.
Hjónin giftu sig í Garðakirkju og í athöfninni hljómaði fantasía og fúga í G-moll eftir Bach.
Eva segir að enginn íburður hafi verið heldur hafi brúðkaupið verið lítið og náið. Síðan var haldin brúðkaupsveisla á heimili þeirra.
Eva er spurð hvaða máli það skipti að vera gift.
„Þetta er „validation“ fyrir mér.“ Staðfesting. „Það er ofsalega auðvelt að horfa á okkur og finnast þetta eitthvað skrýtið að við séum gift eða að yngri kona sé með eldri manni. Það er mikilvægt fyrir mig að ég sé ekki bara einhver „dúkka“. Þannig að það er prinsipp fyrir mig. Það eru vissir hlutir sem ég vildi á þessum tímapunkti. Mig langaði að skapa fjölskyldu eins og ég sagði. Ég er mikil fjölskyldumanneskja en þótt að foreldrar mínir hafi dáið ungir þá á ég fullt af systkinum og rosalega flotta fjölskyldu.“
Eva segist löngu vera hætt að pæla í aldursmuninum. Árunum 38. „Mér er svo sama hvað fólki finnst,“ segir hún og kímir. „Mér finnst Kári ekki vera í takt við aldur hans. Auðvitað geri ég mér grein fyrir að það eru vissir þættir sem ég get ekki breytt og það finnst mér vera óþægilegt en ég get ekki séð hann í takt við jafnaldra sína. Hann er nautsterkur,“ segir hún með áherslu, „og hann er svo hraustur. Og svo er það þessi kollur hans sem er bara gjörsamlega einsdæmi. Hann er klár en það er ekki bara það að hann sé klár heldur er það líka hvernig hann hugsar sem er svo gaman. Við þurfum enga afþreyingu; við getum bara spjallað saman og það er yndislegt.“
Kári er fyndinn. Það eru flestir sennilega sammála um.
„Hann er fyndinn,“ segir Eva og ljómar. „Hann er bara einstakur.“
Hvað er ástin í huga hennar?
„Þetta er erfið spurning. Ást felur í sér mikinn kærleik en líka skilning. Hún getur verið flókin. Þetta er ekki bara eins og í bíómyndunum þegar fólk er „swept away“ og allt er gott og þægilegt. Þegar maður elskar og verður ástfanginn fylgir því líka mikið „vulnerability“ þannig að það þarf mikinn kjark til að elska af opnu og fullu hjarta. Og í alvöru ástarsambandi er ekki alltaf logn. Það er alls konar. Og til þess að halda hlutum góðum þarf maður líka alltaf að fara á dýptina og í æskusárin. Ást er rosalega krefjandi, góð og flókin en ótrúlega gefandi.“
Synir Evu eru í skóla í hverfinu þar sem hjónin búa og hún segir að faðir þeirra muni flytja í hverfið. Þeir koma þess vegna alltaf fyrst eftir skóla til hjónanna þótt það sé pabbavika. „Við náum rosalega vel saman sem fjölskylda. Við erum klárlega öll á rófinu,“ segir Eva og hlær, „en við skiljum hvert annað rosalega vel. Og strákarnir kalla Kára líka pabba.“
Fyrri eiginkona Kára lést fyrir nokkrum árum. Kári á fjögur börn og í dag eru barnabörnin sjö. Sum börn Kára eru eldri en Eva.
„Ég skynja yfir höfuð illa aldur fólks og hef alltaf gert þannig að mér finnst það ekki vera skrýtið. Það er kannski stundum hlægilegt því það er augljóslega ekki normið. En það er kannski svo margt annað í lífinu sem ég upplifi heldur ekki sem norm,“ segir hún og hlær.
„Þetta er stór fjölskylda. Strákunum finnst þeir vera svo ríkir af fólki að það er ómetanlegt. Þeim finnst það vera yndislegt. Og mér finnst það vera dásamlegt.“ Hún brosir.
Lærdómur
Eva er tæplega fertug og hefur gengið í gegnum ýmiss konar áföll sem hafa mótað hana. Þau hafa beygt hana á tímabilum en ekki brotið.
Lærdómurinn er mikill.
„Ég hef lært að horfa inn á við, vera samkvæm sjálfri mér og hvað við erum voldug. Það á ekki að fara í fórnarlambshlutverk heldur bera ábyrgð á sjálfum sér. Það er hægt að bogna og við bognum öll en við höfum samt tækifæri til þess að rísa í eitthvað meira. Kannski finnst mörgum ég hljóma eins og ég sé svolítið ýkt þegar ég tala um þetta því að auðvitað eru áföll mismunandi. En ég vil samt meina að við erum með mikla aðlögunarhæfni þannig að hugarfar skiptir okkur miklu máli. Hvað við sköpum.“
Eins og áður kom fram hefur Eva dregið úr einkaþjálfuninni og einbeitir hún sér í dag að því að aðstoða Kára í verkefnum hans og fara þau reglulega til útlanda vegna þeirra. „Hann er náttúrlega mjög eftirsóttur til að halda fyrirlestra. Hann er líka í nýjum verkefnum og hann mun aldrei hætta. Þetta er nákvæmlega innan míns áhugasviðs, heilbrigði og heilsa. Við erum mikil heild. Við gerum allt saman.“
Hjónin fara reglulega saman í ræktina og í göngutúra. „Kári vill helst æfa alla daga en mér finnst það vera of mikið. Við erum ekki alveg á sama stað hvað þetta varðar. Þegar fólk er komið á hans aldur þá þarf að halda í það að hreyfa sig og það verða stutt skil á milli ef tekin er pása. Það hefur ekki eins mikil áhrif að taka nokkra daga pásu fyrir fólk á mínum aldri. En við æfum á líkamsræktarstöð fimm til sex sinnum í viku, alveg sama hvað. Lífið væri ekki eins gott ef við hreyfðum okkur ekki. Í hvert skipti sem við erum að fara til útlanda að vinna þá bóka ég alltaf hótel sem er með líkamsræktaraðstöðu eða bóka hótel þar sem stutt er á líkamsræktarstöð. Þannig að það er enginn afsláttur gefinn þegar við erum að ferðast. Þetta er lífsstíll.“
„Við erum komin heim“
Hvernig eru draumarnir? Hvernig sér hún framtíðina?
„Eins og hún er núna. Það er það fallegasta við það; halda áfram að gera það sem við erum að gera. Það er rosalega góð tilfinning í staðinn fyrir að vera að eltast við eitthvað sem yrði svo „grandiose“ í framtíðinni. Þetta er lífið sem ég er að lifa og það er dásamlegt. Ég á yndislega fjölskyldu, litlu fjölskylduna og þá stóru, og mér finnst það vera yndislegt. Við Kári erum með nákvæmlega sömu áhugamál en ég fer kannski aðeins dýpra inn í þessu andlegu málefni. Annars erum við á sömu braut sem mér finnst vera „priceless“ að fá að upplifa.“
Eva er búin að missa báða foreldra sína og hefur lent í fleiri áföllum. Finnur hún öryggi hjá Kára? „Já, við erum komin heim.“
Jú, Eva Bryngeirsdóttir er glæsileg, elskuleg og einlæg. Það er stutt í brosið og það er augljóst að hún er hamingjusöm og ástfangin af manninum sínum. Á fallegu heimili þeirra er útsýnið í austur eins og síbreytilegt listaverk alveg eins og lífið getur verið síbreytilegt listaverk. Og í dag kann Eva trikkin til að byggja sig upp, og jafnframt hjálpa öðrum, svo að listaverkið, sem lífið sjálft er, fái að njóta sín sem aldrei fyrr.


Komment