Elliðavatn og fjöllin blasa við úr stórum stofugluggunum. Á leðurstól situr glæsileg kona, Eva Bryngeirsdóttir. Það er stutt í brosið. Eiginmaðurinn, Kári Stefánsson, fyrrverandi forstjóri deCODE, hafði ekið á rauðum, sportlegum jeppa frá bílastæðinu við húsið þegar blaðamaður kom akandi að því. Þennan mann elskar Eva. Án efa hafa margir skoðanir á aldursmuninum, sem eru 38 ár, en ástin spyr ekki um aldur. Og án efa eru margir forvitnir um ungu konuna sem giftist Kára sem gert hefur svo margt fyrir Íslendinga og fleiri svo sem í kórónuveirufaraldrinum. En þá er einmitt gott að hún sjálf segi sína sögu.
Við tvær erum einar í stóru, nútímalegu húsinu. Og tveir kettir. Það eru högnarnir Garpur og Keli.
Garpur gengur til okkar. Lætur ekki í sér heyra.
„Það eru tvær mínútur þar til matarskammtarinn hans pípir þannig að hann er mjög varkár núna og passar að hann fái örugglega að éta. Garpur er nákvæmlega eins og Garfield, Grettir. Hann vill liggja í leti. Hann er augljóslega kóngurinn á heimilinu og hann elskar að éta og lífið snýst um það.“
Og Garpur gengur að skammtaranum og byrjar að éta.
„Ég átti alltaf hund en kunni ekkert á kisur en svo kom ég hingað og Keli, þessi svarti og hvíti, ákvað að ég yrði kisumanneskja. Ég er dolfallin yfir köttunum. Það er ekki aftur snúið. Þetta er yndislegt.“
Svona byrjar viðtalið. Það er strax augljóst að húsmóðirin er einstaklega elskuleg og einlæg. Og hamingjusöm. Og það er góður andi á glæsilegu heimilinu sem er eins og listaverk.
Með ADHD og leiddist aldrei
Eva ólst upp í Smáíbúðahverfinu og var tæplega tíu ára þegar foreldrar hennar skildu og eftir það bjó hún mest hjá móður sinni og systkinum en hún á tvö alsystkini, tvö hálfsystkini í móðurætt og tvö hálfsystkini í föðurætt ásamt stjúpbróður.
„Ég var mjög hugmyndarík ung dama. Mér leiddist aldrei og ég gat alltaf fundið eitthvað að gera. Ég var krakkinn sem fór út að morgni til og svo kom ég heim í lok dags. Ég var virkur krakki,“ segir Eva sem var greind með ADHD árið 2023. „Ég fann upp á öllu mögulegu.“
Hún segir að ADHD hafi háð sér varðandi það sem gerðist innra með sér. Hún talar um flækju í huganum. Hún ofhugsaði allt of mikið. „Ég fúnkeraði og ég lærði í skólanum en ég lærði ekki vel heima.“ Hugurinn var annars staðar. „Já, og út um allt.“
Hana dreymdi á tímabili um að verða sálfræðingur vegna þess að hún var alltaf tilbúin til að ræða um hlutina og gat séð þá frá fleiri en einu sjónarhorni. „Ég var svona sálfræðingurinn í vinahópnum, gat rætt um allt og það var ekkert sem var óþægilegt eða asnalegt.
Ég gat ekki fylgt hópnum. Ef aðrir voru að gera eitthvað þá fannst mér ég örugglega ekki eiga að gera það sama. Mér finnst ég ekki þurfa að fylgja,“ segir hún og kímir.
„Vinkonur mínar fóru í Versló og ég hugsaði með mér að mig langaði ekki til að fara í þann skóla. Þannig að ég sótti um í MR og MH sem varaskóla. Ég komst hvorki inn í MR né MH og mamma mín sat uppi með að koma mér í skóla.“
Eva hóf svo um haustið nám við FG þar sem hún þekkti engan. Hún var á íþróttabraut en henni fannst vera gaman að læra um líkamann en svo fann hún sig ekki á þeirri braut.
„Öll menntaskólaárin afmarkast af klassísku ADHD. Ég fór síðan á málabraut og síðan á félagsfræðibraut og ég útskrifaðist af þeirri braut. Og ég er með aukaeiningar af því að ég var búin að skipta svo oft um braut. Ég get lofað þér því að náms- og starfsráðgjafinn í skólanum fagnaði því örugglega þegar ég útskrifaðist,“ segir Eva og hlær. „Ég var alltaf hjá henni. Ég var einhvern veginn út um allt og mér fannst margt vera áhugavert en ég vissi ekki hvað ég ætlaði að gera með þetta allt. Ég ræddi það við kennara þegar ég var á íþróttabraut að mig langaði ekki til að verða íþróttakennari heldur frekar einkaþjálfari og hann leyfði mér að gera verkefni í takt við það.“
Eva vann í skóbúðum með menntaskólanáminu og hún segir að sér hafi fundist samskiptin við viðskiptavini vera skemmtileg. „Svo elska ég skó.“
Þaðan sem blaðamaður situr sést Keli hlaupa fyrir utan stofuna. Hvar Grettir er, það er spurning. Hann er allavega búinn að éta.
Föðurmissir
Faðir Evu, Bryngeir Guðjón Guðmundsson, eignaðist nýja konu, eignaðist með henni tvö börn og gekk syni hennar í föðurstað. Eva var 18 ára þegar hann fór að veikjast og segir hún að hann hafði fundið fyrir veikindum í einhverja mánuði en aldrei hafði fundist hvað var að.
„Svo kom í ljós briskrabbamein og það var að fara á fjórða stig. Ég var mjög „busy“ í lífi mínu 18 að verða 19 ára, mig langaði að vera í meira sambandi en það var svo rosalega mikið að gera hjá mér.“
Eva var samt sem áður þó nokkuð hjá föður sínum sem krakki. „Það átti að reka mig úr FG af því að ég var með svo lélega mætingu. Ég sagði að ég væri augljóslega að ganga í gegnum mikið erfiði og fékk mætingasamning.
„Briskrabbamein er ekkert grín.“
Briskrabbamein er ekkert grín. Það er rosalega erfitt. Maður var 19 ára að ganga í gegnum flókinn missi og þá skildu mann engir á þessum aldri þar sem þeir höfðu ekki lent í þessu sjálfir. Og fólk á erfitt með að mæta öðrum sem eru að syrgja.“
Eva teygði sig til föður síns í þessum aðstæðum, með þeirri aðferð sem hún treysti sér til.
„Það var margt sem ég vildi segja við pabba og ég skrifaði honum tölvupóst. Ég hafði svo mikla þörf fyrir að tjá mig. Ég skrifaði til dæmis að ég elskaði hann en þetta segir maður ekki auðveldlega 19 ára í svona flóknum aðstæðum. Ég hef ekki hugmynd um hvort pabbi las tölvupóstinn.“
Faðir Evu lést 9. september 2006. Fyrsta barn Evu átti síðan eftir að fæðast 9. september, árið 2015.
Trúður á Mallorca
„Hvað núna?“ segir Eva að hafi komið í hugann eftir útskrift. Stúdentshúfan var komin á kollinn. Hún var ekki búin að finna sinn stað í lífinu en var í langtímasambandi.
„Ég var á fimmta ári í sambandi og ég hugsaði með mér að ég myndi ekki halda áfram að vinna í skóbúðum. Það hlyti að vera eitthvað næst.
Mig langaði til að verða au pair og var búin að finna fjölskyldu á Ítalíu og negla viðtal sem ég fór í en svo allt í einu áttaði ég mig á því að mig langaði ekkert til að verða au pair. Ég kunni ekkert á börn þá. Ég skoðaði alþjóðlegar atvinnusíður og sá meðal annars auglýst eftir fólki í jarðaberjatínslu,“ segir Eva og hlær.
„Það hlutu að vera einhver ævintýri fram undan. Hótelkeðja á Spáni óskaði eftir starfsfólki og ég hugsaði með mér „af hverju ekki?“. Ég sendi inn umsókn og var hringt í mig einn daginn þegar ég var í skóbúðinni og þau buðu mér í Skype-viðtal. Þau vildu í kjölfarið fá mig á tveggja vikna inntökunámskeið á Mallorca.“
Eva fór til Mallroca, fór á námskeiðið og fékk starf. „Þetta var mikil reynsla fyrir unga konu. Ég bar ábyrgð, var á eigin vegum og ég þurfti að láta hlutina ganga upp. Ég get alveg sagt þér það að þetta voru átök.“
Svo fór Eva að vinna sem skemmtikraftur fyrir hótelkeðjuna. Hún dansaði til dæmis fyrir krakka á sviði, lék trúð og sá um leiki fyrir krakka í sundlaug meðan hrunið varð og Ísland var ekki lengur til í bankanum, eins og hún orðar það, þannig að hún þurfti að senda móður sinni pening heim í umslagi til að borga af bílnum sem hún átti á íslandi.
Og á sólareyjunni Mallorca dvaldi Eva í sjö mánuði og kom heim reynslunni ríkari. Slitnað hafði upp úr sambandi hennar og kærastans á þessum tíma.
Tanntæknir
Eftir heimkomuna þurfti unga konan að byrja á nýjum kafla í lífi sínu. Hún hugsaði með sér að hún þyrfti að læra meira. Hún vildi fara í tannlæknanám og tók nokkra kúrsa á heilbrigðisdeild FÁ svo sem líffæra- og lífeðlisfræði og meðal annars áfanga þar sem nemendur lærðu að greina tennur.
„Við þurftum líka að kryfja og krufði ég hjarta. Ég komst að því að mér fannst þetta vera mjög heillandi og spennandi og sótti ég svo um og fór í tannlæknanám. Ég komst fljótlega að því að ég væri engan veginn samkeppnishæf en sjö nemendur af um fimmtíu komust í gegn og ég hafði engan grunn í eðlisfræði eða efnafræði. Ég hélt samt aðeins áfram að mæta og tálga tennur en mér fannst það vera mjög gaman. Ég tók ekki einu sinni prófin og kláraði ekki önnina.“
Eva fór þá að hugsa um hvað hún gæti gert næst. „Þetta er klassískt ADHD. Alltaf að leita og hugsa hvað ég eigi að gera næst.“
„Þetta er klassískt ADHD.“
Hún sendi póst til tanntæknideildar FÁ og spurði hvaða kúrsa hún þyrfti að taka til að klára nám í tanntækni. Í ljós kom að vegna fyrra náms þurfti hún ekki að taka svo marga kúrsa. „Þetta var ein bókleg önn og svo tvær verklegar sem voru úti í Tanngarði.“
Þegar hún var búin með bóklegu fögin og áður en hún kláraði verklega þáttinn bjó hún um tíma á Eskifirði ásamt þáverandi kærasta sínum og fór að vinna í álverinu á Reyðarfirði. „Ég sótti um að verða almennur iðnaðarmaður. Ég var sett í steypuskálann sem vinnur allt álið. Þetta er svo gjörsamlega eins og úr einhverri bíómynd. Ég var með 23 tonn í brúkrana að hella fljótandi áli með fjarstýringu hangandi utan á mér. Þetta er svo ólíkt því sem mér hefði dottið í hug að ég myndi gera.“
Eva viðurkennir að hún hafi stundum orðið hrædd. Og þarna vann hún í tæpt ár.
Síðar kláraði hún tanntækninámið og vann um tíma sem tanntæknir.
„Ég var kasólétt að vinna á tannlæknastofu þannig að eldri strákurinn minn er búinn að sparka í nokkra kúnna í stólnum í gegnum bumbuna,“ segir hún og hlær.
Móðurmissir
Móðir Evu, Dóra Elísabet Sigurjónsdóttir, veiktist af framheilabilun á þeim tíma þegar Eva vann í álverinu á Reyðarfirði og segir Eva að hún hafi orðið skrýtin í hegðun. Hún var veik í mörg ár.
„Ég myndi ekki óska neinum að ganga í gegnum þau erfiði. Hún missti málið mjög snemma. Þetta var hræðilegt,“ segir Eva með áherslu. „Hún var svo ung þegar þetta gerðist að hún passaði hvergi í kerfið. Hún var allt of ung til þess að fara á elliheimili. Hún gat gert ýmislegt þótt hún gæti ekki tjáð sig. Þetta var svo vond staða. Við vorum oft leitandi að henni hér og þar og einu sinni var hringt í okkur en þá hafði einhver fundið hana í Fjarðarkaupi í Hafnarfirði en hún bjó í Grafarvogi. Þetta var svakalega erfitt ástand í mörg ár. Hún fór einu sinni í bílaumboð og var allt í einu búin að borga inn á einhvern bíl. Hún keypti allt mögulegt inn á heimilið og fullt af því sama. Það meikaði ekki sens. Þetta var brútalt.
Ég áttaði mig á því að það var ekki langur tími sem ég hafði til að eiga einhver samskipti við hana þannig að ég ræddi við barnsföður minn og við tókum ákvörðun um að ég færi til Reykjavíkur; ég var að fara að eyða síðustu mómentunum sem ég gat mögulega haft einhverjar tengingar við hana. Ég ætlaði að búa heima hjá mömmu og stjúppabba.
„Manneskja sem fær þennan sjúkdóm missir persónueinkenni sín.“
Þetta var átakanlegt. Manneskja sem fær þennan sjúkdóm missir persónueinkenni sín. Hún verður bara allt önnur manneskja og það getur komið upp reiði og alls konar tilfinningar. Þetta var krefjandi. Ég reyndi að búa heima og hjálpa til eins lengi og ég gat en svo tók ég ákvörðun um að fara að leigja.
Þetta hafði mikil áhrif á mig. Rosaleg,“ segir Eva með áherslu, „vegna þess að þetta segir manni hvað lífið er. Maður getur haft alls konar væntingar til þess en maður mun aldrei stjórna öllu. En maður getur stjórnað hvernig maður bregst við því sem kemur upp.“
Svo hringdi Kári
Evu og alsystkini hennar langaði til að vita hvort sjúkdómurinn væri ættgengur „Auðvitað kom hræðsla í mig við að horfa upp á allt þetta og ég hugsaði með mér hvort ég ætti eftir að lenda í þessu. Það var óþægileg tilfinning. Ég sendi þess vegna árið 2018 tölvupóst á aðalnetfang deCODE og spurði hvort fyrirtækið hafi rannsakað ættgengi Pick's desease,“ segir Eva en það er sjúkdómurinn sem móðir hennar var með. „Svo hringdi Kári Stefánsson í mig. Hann sagði að þau hefðu ekki fundið ættgengi sjúkdómsins en þau vildu gjarnan fá að raðgreina okkur systkinin og skoða þetta. Ég bara vó! Bara Kári að hringja í mig! Ok.“ Eva hlær.
„Hann er bara heitur!“
„Við fengum strimla til að taka DNA-sýni, munnvatnssýni. Svo fórum við systkinin á fund á skrifstofu Kára þegar hann ætlaði að segja okkur niðurstöðurnar. Hann var í gallaskyrtunni sinni og það var allt á rúi og stúi á skrifstofunni. Og hann ræddi við okkur. Það er svo fyndið að segja frá því að þegar við vorum komin fram eftir að hafa talað við hann sagði ég við systkini mín: „Hann er bara heitur!“ Eva hlær. „Systkini mín voru vön því að ég segði ýmislegt óritskoðað; sem krakka fannst mér til dæmis Bruce Willis vera brjálæðislega flottur. Þannig að þetta var ekkert nýtt. Bróðir minn hló að mér.“ Eva er augljóslega ástfangin. „Kári er rosalega sjarmerandi,“ segir hún með áherslu. „Ég tók eftir honum. Ég finn svo mikla orku frá fólki og ég hafði setið þarna og „já“!“. Hún hlær.
Systkinin eru ekki arfberar og það var mikill léttir. „Maður vill ekki ganga í gegnum þetta og öll erfiðin sem fylgja því og hugsa svo „er ég næst?“. En að sjálfsögðu hvílir þetta alltaf á manni.“
Eva flutti svo aftur austur og kom svo aftur í bæjarferð þegar móður hennar hafði hrakað. „Ég hugsaði með mér að ef hún væri að fara að kveðja þá ætlaði ég að vera á staðnum.“
Afmælisdagur Evu rann upp haustið 2018. Og á þeim degi lést móðir hennar og var fjölskyldan hjá henni.
„Ég hugsaði með mér að það hlyti að vera einhver meining á bak við það að hún dó á afmælisdaginn minn. Ég hugsaði með mér að ég ætlaði alltaf að fagna lífinu á afmælisdaginn. Þetta hafði mjög djúpstæð áhrif á mig og ég fór mikið að pæla í allri heilsunni. Þarna byrjaði í rauninni lífsstílsbreyting mín. Ég var búin að eignast tvö börn, ég hafði fitnað og lífsstíllinn var ekki lengur eins og hann var þegar ég var yngri. Það var allt endurskoðað í lífi mínu.“
Sorgin
Hvað er dauðinn í huga Evu? Tekur eitthvað við þegar fólk deyr?
„Mig langar til að trúa því. Ég vil allavega ekki útiloka það og ég sagði strákunum að amma þeirra og afar séu englar. Og ég hef sagt þeim að allir lifi áfram í hjartanu þeirra og að þeir finni tengingu við þau með því að hugsa fallega til þeirra. Yngri sonur minn hefur spurt hvort þau fylgist alltaf með sér. Ég sagði svo ekki vera. Þetta er svolítið flókið.
Tíminn læknar engin sár. Klárlega ekki. En við lærum að lifa með þessu og það skiptir máli þegar við gefum hlutum þýðingu, það skiptir máli hvernig við tökumst á við hlutina. Mér fannst ég geta fundið mikla merkingu í öllu. Í staðinn fyrir að leita út í svona erfiðleikum þá leitaði ég inn á við af því þar liggur krafturinn. Mér finnst við vera rosalega voldug. Ég er með miklar tilfinningar.“
Eva viðurkennir að hún sé næm.
„Mér finnst ég finna orku frá fólki.“ Það nefndi hún varðandi Kára. „Manneskja getur staðið fyrir framan mig og sagt eitthvað og ég finn ef hún meinar það ekki sem hún segir. Ég hef til dæmis stundum ekki orku til að fara á skemmtanir þar sem er fullt af fólki. Og mér finnst vera þreytandi aðstæður þar sem fólk stundar ákaft spjall á yfirborðinu, þetta sem við köllum „small talk“.
Það sem mér finnst óspennandi er ef fólk horfir kannski á mig og ímyndar sér eitthvað út frá því sem það sér en þekkir mig ekki neitt og er með einhverja hugmynd um mig út frá útlitinu einu og sér. Yfirborðið segir ekki mikið. Það er ekki þægilegt.“
Hreyfingin
Eva var 31 ára þegar móðir hennar lést. Eins og hún sagði fór hún að hugsa meira um heilsuna og hún fór að stunda meiri hreyfingu. Yngri sonur hennar var þá eins árs og hún var búin að vera með hann á brjósti og hún talar um að hún hafi verið full af hormónum og allt of þung. „Eftir að ég eignaðist yngri strákinn minn fór ég upp í 76 eða 77 kíló. Það er allt of mikið fyrir svona litla manneskju eins og ég er,“ segir Eva sem segist vera 1,64 metri á hæð.
„Ég var svo þrútin. Meira að segja andlitið á mér var allt öðruvísi. Mér fannst karakterinn vera sterkur en mér fannst líkaminn vera eins og byrði utan á mér. Mér fannst hann ekki vera í takt við mig og það var mjög óþægileg tilfinning. Ég var í svo lélegu formi og það var vont. Ég var með tvo litla, hressa og kraftmikla krakka og var sjálf ekki í stakk búin til að díla við það. Það var hræðileg tilfinning. Mér fannst ég ekki ráða við þetta.“
Evu leið illa.
Í kjölfars lífstílsbreytingarinnar missti hún tæp 20 kíló. Fyrstu átta til tíu kílóin fóru á nokkrum mánuðum aðeins með breyttu mataræði og smá aukinni hreyfingu heima.
Hún talar um að þegar fólk byrjar að hreyfa sig sé klassískt að það leggi áherslu á yfirborðslega þætti eins og það að vilja líta vel út, vera grennra og finnast það vera kynþokkafullt. „Svo þegar við förum af stað og erum að gera þetta rétt, án þess að ætla að svelta okkur, förum við að finna fyrir innri styrk og krafti.“
Garpur kemur gangandi og leggst ofan á annan fót blaðamanns og liggur þar eins og skata í langan tíma.
„Honum finnst svolítið gott að kúra á löppum. Litli kall,“ segir Eva blíðum rómi. „Hann sækist mikið í lappir. Hann vill miklu frekar að honum sé klappað með fótum heldur en höndum.“
Nýkomin með greiningu
Þegar hefur komið fram að Eva var greind með ADHD árið 2023 og telur hún að hún sé mjög líklega á einhverfurófi. Báðir synir hennar eru með ADHD og á einhverfurófi og hún sagði við sálfræðing sem hún fór til vegna ADHD-greiningar að hún vildi ekki að það yrði athugað hvort hún sé á einhverfurófinu vegna þess að það myndi ekkert þýða fyrir sig. „Það breytir engu. Ég er eins og ég er.“
Hún er spurð hvers vegna hún haldi að hún sé á einhverfurófi. „Ég tengi við rosalega margt. Fyrir utan að báðir strákarnir mínir eru báðir með ADHD og á einhverfurófinu er einhverfa mjög tíð í fjölskyldunni.
Ég er til dæmis með ósveigjanlegan ramma og mér finnst það vera mjög óþægilegt þegar hlutir taka skyndilega breytingum. Ég vil hafa hlutina á vissan hátt. Ég get orðið rosalega næm ef það eru læti og hávaði í kringum mig. Ég fór á sínum tíma í kulnun og við það fannst mér allt magnast upp hjá mér. Þegar ég fór í verslunarmiðstöðvar setti ég heyrnartól í eyrun og sólgleraugu og labbaði þannig í gegn. Ég finn rosalega fyrir öllu. Það fer allt í gegnum mig. Eins og þegar ég hlusta á tónlist. Við Kári förum alltaf á Sinfó á fimmtudögum. Öll tónlistin fer algjörlega í gegnum mig. Beint inn í hjartað á mér. Það er svo fyndið. Við Kári vorum bæði með heilsuúr á okkur eitt skiptið þegar við fórum á sinfóníutónleika. Hann mældist eins og í slökun en ég mældist eins og ég stæði í átökum. Tónlistin hefur svo mikil áhrif á mig.“
Í einkaþjálfaranám
Eva og barnsfaðir hennar slitu sambúð 2019 eftir tíu ára samband. Þau bjuggu þá á Eskifirði og flutti hún í annað húsnæði í bænum. „Ég var í fínni skrifstofuvinnu og mér gekk vel og svo skall Covid-heimsfaraldurinn á og maður var skíthræddur. Maður vissi ekkert. Yngri strákurinn hafði greinst með lækkun í MBL-gildum sem á að hafa þau áhrif að kerfið hans berst ekki jafnvel við sýkingar. Hann varð reyndar ekkert veikari en bróðir hans á fyrstu árunum. Ég útbjó svo vinnuaðstöðu heima og við tókum strákana af leikskólanum í einhvern tíma. Þetta var álag.“
Þarna upplifði Eva sig standandi á tímamótum.
„Ég vann í Excel alla daga og þá kom næsti punktur eins og eftir menntaskólann: Hvað núna? Hvað tekur við? Þetta er ekkert „ég“ að vera skrifstofudama sem situr á bak við tölvuna í Excel alla daga. En ég geri allt vel sem ég geri, alveg sama hvort það er tölvuvinna eða vinna í álveri. Ég er þannig innrætt. Ég fer „all in“ í allt sem ég geri. Mér gekk vel en ég fór að velta fyrir mér draumunum. Hvað langaði mig til að gera? Ég fór að skoða einkaþjálfaranám í Íþróttaakademíu Keilis og skráði mig í tveggja anna staðlotunám sem ég hóf haustið 2020.
Mér fannst þetta vera hrikalega spennandi. Allt um líkamann heillar mig hvort sem það er líkaminn sjálfur, hugsun eða hegðun.“
Fór í kulnun
Eva samdi við vinnuveitanda sinn um að fara í 75% vinnu og var því einstæð móðir með tvö börn í 75% vinnu og 100% námi. „Það var svolítið verkefni og ég var alltaf að keyra í bæinn til að fara í þessar lotur og spurði barnsföður minn hvernig ég ætti að púsla þessu saman. Hann spurði hvort ég þyrfti ekki að flytja í bæinn svo ég gæti klárað námið. Það voru og eru góð samskipti á …


Komment